Einhugur var í sveitarstjórn Bláskógabyggðar um að fallast ekki á áform eiganda jarðarinnar Skálabrekku við Þingvelli um að reisa lúxushótel með 120-160 herbergjum, heilsársbústaðabyggð, golfvöll, sundlaug og gróðurhús á jörðinni. Málið var tekið fyrir á sveitastjórnarfundi sl. fimmtudag.
Helgi Kjartansson, oddviti Bláskógabyggðar segir sveitarstjórnina ekki leggjast gegn því að áfram sé unnið að hugmyndum um hótelbyggingu á jörðinni, en að sú hugmynd verði að vera minni í sniðum.
„Þetta er við þjóðgarðinn og þetta yrði gríðarleg breyting fyrir umhverfið og samfélagið,“ segir hann. „Síðan er þetta líka innan vatnsverndarsvæðis Þingvalla og lög um vatnasvið Þingvallavatns gilda um þetta svæði.“
Sveitastjórnin bendi í bókun sinni á að samkvæmt þeim lagaskilyrðum sem gildi um svæðið megi ekki taka þar upp neinn nýjan starfsleyfisskyldan rekstur sem getur haft mengun eða jarðrask í för með sér, nema leyfi ráðherra liggi fyrir. „Það er umhverfisráðherra og hann þarf að fá umsókn Umhverfisstofnunnar og fleiri hluteigandi aðila. Þannig að við leggjumst ekki gegn því að áfram verði unnið að hugmyndum um hótelbyggingu, en þá með fyrirvara um vatnasvið Þingvallavatns,“ segir Helgi.
Sveitarstjórnin telji skynsamlegt fyrir eiganda Skálabrekku að byrja á að kanna viðhorf Umhverfisstofnunar, sem og umhverfisráðuneytisins. „Að menn kanni hvað lögin segja. Þannig að ekki sé verið að fara í hugmyndasamkeppni og láta peninga í alla þessa vinnu, ef hún er svo kannski ekki í boði þegar á reynir.“
Helgi segir sveitarstjórn hafa tekið mjög faglega á umsókninni. „Þegar við fengum þetta erindi fyrst inn þá fengum við fulltrúana á fund til okkar,“ segir hann. „Síðan fórum við í vettvangsferð í desember þar sem að við gengum um allt þetta svæði og áttuðum okkur á staðháttum. Það var svo núna 1. febrúar sem við tókum málið formlega fyrir.“
Hann segir það mat sveitarstjórnarinnar að þessi gríðarlega miklu áform eigi ekki heima á þessum stað. „Maður vill að umhverfið í nágrenni þjóðgarðsins virki svolítið ósnortið og þessi mikla uppbygging gæti haft áhrif á það.“
Nokkuð öruggt megi enn fremur telja að hótel af þessari stærðargráðu þurfi að fara í umhverfismat, m.a. vegna nálægðarinnar við Þingvelli.