Knýjandi rök þurfi til að banna myndatökur

Dómsalur 3 í Landsrétti. Hingað inn verður ljósmyndurum alla jafna …
Dómsalur 3 í Landsrétti. Hingað inn verður ljósmyndurum alla jafna ekki leyft að koma. mbl.is/Hanna

„Það var fundur með Dómstólasýslunni þar sem þau voru að kynna sína starfsemi og þessa nýju stofnun. Þar var þetta meðal annars nefnt, en við lögðumst að sjálfsögðu gegn því, enda teljum við þetta fráleitt,“ segir Hjálmar Jónsson, formaður Blaðamannafélags Íslands, um það að ljósmyndurum hafi verið bannað að mynda inni í dómsal Landsréttar í morgun.

„Ég tel þetta óheillaspor. Mér fannst ég ekki merkja þess á þessum upplýsingafundi að það stæði til að takmarka myndatökur,“ bætir Hjálmar við í samtali við mbl.is.

„Þetta er almannavettvangur og dómþing eru opin. Það þurfa að vera einhver rök fyrir því að banna myndatökur. Það fer auðvitað eftir eðli málsins sem er til umfjöllunar, en almennt ætti það að vera opið. Það ætti að vera meginreglan að mínu viti,“ segir Hjálmar.

Hann segist þó telja að dómstólunum sjálfum sé það í hendur lagt hvort þeir leyfi eða banni myndatökur í dómsölum. Þeir geti lokað dómþingum og geri það stundum.

Hjálmar Jónsson, formaður Blaðamannafélags Íslands.
Hjálmar Jónsson, formaður Blaðamannafélags Íslands.

„Það hvarflar ekki að mér að þeir séu að brjóta lög með þessu. Þeir hljóta að telja sig hafa heimild til þessa,“ segir Hjálmar.

Lögmannafélagið og Dómarafélagið vildu takmarka myndatökur

Hjálmari var ókunnugt um að það stæði til að þetta fyrirkomulag yrði ríkjandi í sölum hins nýja Landsréttar.

„Það er náttúrulega ákveðin hefð fyrir því í héraðsdómi og Hæstarétti að myndatökur séu leyfðar áður en dómþing hefst og hefur ekki verið ágreiningur um það,“ segir Hjálmar. Hann bætir því þó við að hann reki minni til þess að á fundinum með Dómstólasýslunni hefði komið fram að Lögmannafélaginu þætti ástæða til að takmarka myndatöku.

Lögmannafélagið hefur raunar lýst þeirri skoðun í umsögn sinni um frumvarp til laga um breytingu á lögum um dómstóla, árið 2007, en þar segir:

„Laganefnd tekur undir ákvæði frumvarpsins varðandi bann við mynda- og öðrum upptökum í dómhúsum. Það hefur ekki eingöngu slæm áhrif á sakbominga í opinberum málum, heldur verður að telja að myndatökur í dómhúsum geti haft áhrif á vitni. Virðist sem þetta sé útbreitt álit margra er koma að dómsmálum, hvort sem er dómarar, málflytjendur í einkamálum og sækjendur eða verjendur í opinberum málum.“

Dómarafélagið var einnig fylgjandi því að breyta ákvæði laga er varðar myndatökur í dómhúsum og sagði í umsögn til Alþingis árið 2007:

„Myndatökur í dómhúsum og inn í dómsali, án sérstaks leyfis dómara, hafa farið úr böndum. Ekki verður talið að frumvarpið feli í sér alvarlega skerðingu á tjáningarfrelsi eða upplýsingaskyldu fjölmiðlamanna.“

Hjálmar telur myndatökur í dómsölum hluta af tjáningarfrelsinu í lýðræðissamfélagi. Dómþing sem séu á annað borð opinber eigi að vera opin ljósmyndurum einnig og knýjandi rök þurfi að vera fyrir því að takmarka aðgengið.

Þá eigi fyrirkomulagið að liggja fyrir með skýrum hætti, en ekki „lagt í geðþóttavald einhverra dómara, þótt ágætir séu.“

Úr húsakynnum Landsréttar við Vesturvör í Kópavogi.
Úr húsakynnum Landsréttar við Vesturvör í Kópavogi. mbl.is/Hanna

Segir íslenska fjölmiðla afskaplega kurteisa

„Öðru hverju hefur gosið upp umræða um þetta af einhverjum sérstökum tilefnum, en við höfum ávallt andmælt því og verið á móti því og sjáum ekki rökin fyrir því, enda eru íslenskir fjölmiðlar afskaplega kurteisir og fara vel með þessar myndatökur að mínu viti,“ segir Hjálmar.

Hann segir opin dómþing einn þátt í því að tryggja að réttarhöld fari fram með alls óhlutdrægum hætti.

„Það er auðvitað algjörlega nauðsynlegt að það sé með þeim hætti. Þess vegna á ekki á aldrei að loka dómþingum nema í algjörum undantekningartilfellum,“ segir Hjálmar.

Blmr: En þá gæti einhver sagt, er nauðsynlegt að taka myndir?

„Það má deila um það, en ég sé ekki hvernig það ætti að trufla varnir einhvers að það séu myndatökur frekar en að það sitji blaðamaður og taki upp það sem fram fer. Það er enginn munur á því. Þetta er bara partur af því að dómþing séu opin.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert