„Virðulegi Hæstiréttur, nei Landsréttur“

Fyrsta málið sem flutt var fyrir Landsrétti snerist um akstur …
Fyrsta málið sem flutt var fyrir Landsrétti snerist um akstur án ökuréttinda og bílbeltis. mbl.is/Arnar Þór

Dagurinn í dag er sögulegur í íslenskri réttarsögu fyrir þær sakir að klukkan níu í morgun hófst málflutningur í fyrsta málinu sem flutt er fyrir Landsrétti, hinu nýja millidómsstigi Íslendinga.

„Virðulegi Hæstiréttur, nei, Landsréttur vildi ég sagt hafa,“ sagði Stefanía G. Sæmundsdóttir saksóknari í fyrstu málflutningsræðunni.

Fyrsta mál Landsréttar, mál nr. 1/2018, varðar umferðarlagabrot. Ákærða er gefið að sök að hafa, föstudaginn 20. mars 2015, ekið bifreið sviptur ökurétti og án þess að hafa notað öryggisbelti suður Höfðabakka í Reykjavík, til móts við Fálkabakka.

Ákærði krefst ómerkingar á fyrri dómi héraðsdóms, en hann mætti ekki við aðalmeðferð málsins og var því jafnað við viðurkenningu sektar.

Verjandi mannsins, Björgvin Jónsson, mótmælti málsmeðferðinni í héraði. Ákærði í málinu hefur haldið því fram að hann hafi ekki verið sjálfur við stýrið.

Einn almennur borgari utan blaðamanns mætti í dómsal og fylgdist með því sem fram fór. Það var Svavar Kjarrval laganemi.

Hann sagði daginn sögulegan og það kom honum á óvart að það hefðu ekki fleiri borgarar séð sér fært að mæta.

Dómarar í þessu fyrsta máli Landsréttar eru Aðalsteinn Jónasson, Ásmundur Helgason og Hervör Þorvaldsdóttir.

Það er kuldalegt um að lítast á Kársnesinu í dag.
Það er kuldalegt um að lítast á Kársnesinu í dag. mbl.is/Arnar Þór
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert