Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, spurði Bjarna Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, á Alþingi hvort hann væri ábyrgur fyrir setu annarra ráðherra síns flokks í ríkisstjórn. Ef ekki, hver væri þá ábyrgur fyrir því.
Þar átti hann við Sigríði Á. Andersen dómsmálaráðherra og landsréttarmálið.
Helgi sagði að ákveðið tómarúm hafi myndast í pólitískri ábyrgð á Íslandi vegna þess að enginn pólitískur vilji sé til að nýta landsdóm síðan hann dæmdi í máli Geirs H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra.
Sagði hann Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra hafa bent á formann Sjálfstæðisflokksins varðandi ábyrgð á setu annarra ráðherra.
Bjarni Benediktsson svaraði þannig að ef Helgi telji ástæðu til að virkja lögin um landsdóm skuli hann tala fyrir því á Alþingi. Bætti hann við að undarlegt hafi verið að heyra sérfræðinga og aðra segja að lögunum hafi verið kippt úr sambandi.
Bjarni sagði lögin úrelt og vill að fyrirbærið landsdómur verði fellt niður og að málið verði fært í almennari farveg. Í millitíðinni þá gildi núgildandi lög.
„Varðandi það í hvers skjóli ráðherrar sitja í ríkisstjórn er það tiltölulega einfalt að í tilfelli Sjálfstæðisflokksins legg ég fram tillögu í þingflokknum sem fær blessun og ég fer með hana til samstarfsflokkanna," sagði Bjarni.
Helgi spurði hvort ráðherrann leggi tillögu fyrir þingflokk sinn um það hverjir aðrir verði ráðherrar. Einnig spurði hann aftur að því hver beri ábyrgð á því að dómsmálaráðherra víki ef hann standi sig ekki í starfi sínu.
Svaraði Bjarni þannig að þingbundin stjórn væri í landinu og tapi ráðherra trausti Alþingis sé hægt að leggja fram vantrauststillögu á hann. Ekki þurfi að horfa til formanns Sjálfstæðisflokksins vegna þess, heldur meirihluta Alþingis.
Bjarni sagði vissulega geta orðið breytingar í sínum stjórnmálaflokki af ýmsum ástæðum. „Tapi menn trausti getur það m.a. leitt til breytinga á skipan ráðherralista Sjálfstæðisflokksins eins og hjá öðrum flokkum og eru dæmi um það í sögunni í hinu íslenska stjórnmálalífi.“