Vissu ekki að fluginu hefði verið aflýst

Flugvél Air Iceland Connect.
Flugvél Air Iceland Connect. mbl.is/Sigurður Bogi

Air Iceland Connect, einnig þekkt sem Flugfélag Íslands, hefur verið gert að greiða hverjum og einum úr  hópi erlendra ferðamanna 250 evrur, eða um 31 þúsund krónur vegna þess að flugi sem þeir áttu að fara frá Reykjavík til Ísafjarðar var aflýst.

Þetta kemur fram í úrskurði Samgöngustofu.

Farþegarnir komu til Íslands á vegum ferðaskrifstofunnar Iceland ProTravel sumarið 2016. Hluti ferðalagsins var flugferð frá Reykjavík til Ísafjarðar og til baka.

Í fylgigögnum kvörtunar farþeganna eru afrit af samskiptum Evrópsku neytendaaðstoðarinnar við Air Iceland Connect.

Þar kemur fram að Air Iceland Connect hafði tilkynnt ferðaskrifstofunni um aflýsingu flugsins 19. maí 2016, eða með 27 daga fyrirvara.

Ferðaskrifstofunni láðist að tilkynna ferðamönnunum um aflýsinguna og varð þeim ekki kunnugt um hana fyrr en þeir voru mættir til brottfarar á Reykjavíkurflugvelli 14. júní 2016.

Air Iceland Connect.
Air Iceland Connect. mbl.is/Árni Sæberg

Höfnuðu ábyrgð á bótaskyldu

Air Iceland Connect hafnaði ábyrgð á bótaskyldu. Fram kom að flugfélagið hefði tilkynnt ferðaskrifstofunni um að fluginu hafi verið aflýst með nægum fyrirvara. Skortur á tilkynningu til ferðamannana hljóti að vera á ábyrð ferðaskrifstofunnar.

„FÍ tiltekur einnig að það sé ótækt að félagið beri ábyrgð á háttsemi og vanrækslu þriðja aðila sem starfi ekki í umboði félagsins,“ segir í svari Air Iceland Connect til Samgöngustofu.

Reykjavíkurflugvöllur.
Reykjavíkurflugvöllur. mbl.is/Golli

Bentu á niðurstöðu þýsks dómstóls

Ferðamennirnir bentu á dómsniðurstöðu hjá þýskum dómstól þar sem talið  var að  flugfélög  bæru  ábyrgð á tilkynningu um  aflýsingu til farþega þó svo að flugförin væru bókuð í gegnum ferðaskrifstofu og að ferðaskrifstofunni í því máli hefði verið tilkynnt um aflýsinguna.

Í úrskurðinum kemur fram að ábyrgð á tilkynningu til farþega hvíli óhjákvæmilega, að mati Samgöngustofu, á flugrekendum vegna þess að enginn annar aðili er tiltekinn sem mögulega ábyrgur fyrir slíkri tilkynningu.

Þar segir einnig að taka verði undir rök ferðamannanna um að Air Iceland Connect hefði hæglega getað óskað eftir upplýsingum um farþega til að koma skilaboðum um aflýsingu áleiðis eða á annan hátt tryggt í samstarfi við ferðaskrifstofuna að allir farþegar hefðu verið upplýstir um aflýsinguna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert