„Ég legg áherslu á að það hefur engin ákvörðun verið tekin önnur en að fá allar upplýsingar upp á borðið, svo að menn geti tekið yfirvegaða umræðu um það hvert við stefnum, segir Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, um skýrslu starfshóps um framtíð Reykjavíkurflugvallar.
Greint var frá því á miðvikudag að starfshópurinn, undir stjórn Hreins Loftssonar, hefði skilað inn áfangaskýrslu þar sem hann mælir með að fullkannað verði með flutning flugvallarins í Hvassahraun og að það þurfi að gera jafnfljótt og auðið er.
„Ég fór með minnisblað á ríkisstjórnarfund á þriðjudag og í kjölfarið birtum við þessa skýrslu,“ segir Sigurður Ingi. Í henni komi fram að það þurfi að fullkanna bæði kostnað og hvað þurfi að gera á Reykjavíkurflugvelli til þess að hann uppfylli þær kröfur sem gerðar séu til hans sem innanlandsflugvallar, öryggisflugvallar, sjúkraflugvallar og varaflugvallar.
Sigurður Ingi bendir á að fram hafi komið í skýrslu Þorgeirs Pálssonar, fyrrverandi flugstjóra, um flugvallarmálið nauðsyn þess að það séu tveir flugvellir á suðvesturhorninu til þess að uppfylla öryggisskilyrði. Þá hafi Rögnunefndin svonefnda, sem lagði til Hvassahraun, ekki fullkannað Reykjavíkurflugvöll.
„Þess vegna er í minnisblaðinu til ríkisstjórnar annars vegar talað um að fá yfirsýn yfir það sem þarf að gera á Reykjavíkurflugvelli og hvað það muni kosta til að hann uppfylli um langa framtíð þessar kröfur. Samhliða þessu myndum við setja á laggirnar óháða skoðun á Hvassahraunsmálinu, til að hafa einhvern valkost til að bera saman við,“ segir Sigurður Ingi. „Til að við getum svarað þessari spurningu sem hefur kannski verið ósvarað dálítið lengi hér á Íslandi.“
Sigurður Ingi segir koma skýrt fram í áfangaskýrslunni að engin áform séu uppi um að Reykjavíkurflugvöllur fari neitt, fyrr en annar sambærilegur flugvöllur sé kominn til að uppfylla þessi skilyrði.
„Ég legg áherslu á að í þessu sambandi hefur engin ákvörðun verið tekin annað en að fá upplýsingar upp á borð svo að menn geti tekið yfirvegaða umræðu um það hvert við stefnum,“ segir hann.
Í áfangaskýrslunni er m.a. vísað í nokkuð ítarlega rannsókn Icelandair á aðstæðum í Hvassahrauni fyrir flugvöll, en þar segir m.a. að veðurfarslegar aðstæður séu betri þar en á Keflavíkurflugvelli en þó verri en í Reykjavík.
Spurður um þá fullyrðingu segir ráðherra nauðsyn að fá óháðan aðila til að gera ítarlega skoðun. „Til að umræðan verði málefnaleg og trúverðug,“ segir hann. „Við þekkjum söguna. Það hafa margir tekið stöðuna og margir samningar verið gerðir. Það hefur margt verið gert sem samt hefur einvern veginn ekki verið í takt við það sem menn ætla sér.“
„Núna verðum við hins vegar að komast til botns í þessu og fyrsta skrefið er nánari úttekt á Reykjavíkurflugvelli,“ segir Sigurður Ingi. Þetta hafi komið fram í minnisblaði sínu og sé í tillögum nefndarinnar „og ég er að framfylgja því.“ Þetta sé sömuleiðis í takt við það sem fram hafi komið hjá Rögnunefndinni. „Svo er það hinn þátturinn, til þess að hafa valkost til samanburðar og hugsanlega að skoða þá þessar hugmyndir Icelandair, að þá þar líka að setja saman starfshóp. Ég held að það sé óhjákvæmilegt að við fáum erlenda aðila til slíks, vegna hagsmunatengsla á Íslandi.“
Kveðst ráðherra ætla að fara fyrir því að það verði gert. „Ég hyggst vinna þetta áfram á grundvelli þessara tillagna til að við getum tekið þessa umræðu á eitthvað málefnalegra og vitrænt plan.“
Verið sé að skoða hvernig erlendi starfshópurinn verði settur saman, en ljóst megi telja að vinna hans muni taka einhvern tíma. Sigurður Ingi kveðst engu að síður vera meðvitaður um tímapressuna. „Þar sem þetta mál hefur kannski allt of lengi fengið að vera í þessum farvegi sem það hefur verið í.“
Lengi hefur legið fyrir að Framsóknarflokkurinn er hlynntur því að flugvöllurinn sé áfram í Vatnsmýrinni. Spurður um þetta segir Sigurður Ingi þetta hafa verið skoðun flokksins á grundvelli þeirra upplýsinga sem fyrir hafi legið.
„Ég kem að þessu núna sem ráðherra að þessum málaflokk og þarf að nálgast verkefnið með það í huga hvað er best fyrir íslenska þjóð. Þess vegna er ég að leita eftir því að fá þessar upplýsingar sem bestar á borðið svo við getum tekið umræðu á trúverðugum grunni og síðan þá einhverja ákvarðanatöku,“ segir Sigurður Ingi. „Ég ítreka þó enn og aftur að það er engin ákvörðun fólgin í því sem ég er að gera núna. Ég er fyrst og fremst að fylgja þessu eftir.“