Lögreglunni á Akureyri barst tilkynning klukkan 11 í morgun þess efnis að bifreið hefði hafnað ofan í Eyjafjarðará. Slysið varð með þeim hætti að ökumaðurinn, sem ók suður Eyjafjarðarbraut eystri, sofnaði undir stýri með þeim afleiðingum að bifreiðin fór yfir á öfugan vegarhelming, á vegrið og hafnaði ofan í Eyjafjarðará.
Ökumaðurinn komst út úr bifreiðinni af sjálfsdáðum og mun vera ómeiddur. Búið er að ná ökutækinu upp úr ánni og mun það hafa orðið fyrir talsverðu tjóni.
Fyrir skömmu fékk lögreglan á Akureyri tilkynningu um vélsleðaslys á Reyðarárhnjúki. Unnið er að því að flytja manninn frá slysstað og ekki er vitað um meiðsli eins og stendur.