Stormurinn nálgast hámarkið

Mikið rok, úrkoma og slæmt skyggni. Fólki er ráðlagt að …
Mikið rok, úrkoma og slæmt skyggni. Fólki er ráðlagt að halda sig innandyra. mbl.is/Jónas Erlendsson

Stormurinn sem nú geisar á landinu suðvestanverðu nálgast hámarkið á SV-horninu. Þetta segir Óli Þór Árnason veðurfræðingur. Úrkoma og mikið rok gerir það að verkum að skyggni er mjög takmarkað í höfuðborginni. Götur verða auðveldlega ófærar þegar snjór safnast saman í götum og er fólk því hvatt til að vera ekki á ferðinni að óþörfu.

„Það má segja að við séum að ná hámarki núna, og veðrið verður þá óbreytt í góða tvo tíma í viðbót,“ segir Óli Þór en þegar líða tekur á daginn dregur úr úrkomu en það er ekki fyrr en um kvöldmatarleytið sem vind tekur að lægja.

Óli Þór áréttar þó að fólk ætti ekki að rjúka af stað síðdegis þar sem færðin gæti víða enn verið erfið og þar að auki megi búast við erfiðari aðstæðum í dreifbýli en þéttbýli og sérstaklega á fjalllendi. Það séu því líkur á að það verði ekki fyrr en um miðnætti sem skaplegt verður á Hellisheiði og Mosfellsheiði.

Spurður hvort fólk eigi að halda sig innandyra í dag stendur ekki á svörum hjá Veðurfræðingnum: „Eru ekki allir uppteknir í bollubakstri? Bollurnar eru aldrei betri en þegar það er vont veður úti.“

Á kortinu að neðan má sjá lægðina „í beinni“. Athugið að ekki er um rauntímagögn að ræða.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka