Karlmaður á fimmtugsaldri var í síðustu viku dæmdur í átta mánaða fangelsi, þar af sex skilorðsbundna, fyrir manndráp af gáleysi, líkamsmeiðingar af gáleysi og umferðarlagabrot fyrir ofsaakstur um Norðurlandsveg, þar sem hann var ófær um að stjórna bifreið sinni vegna deyfilyfja, og að hafa valdið umferðaslysi þar sem ökumaður annarrar bifreiðar lést.
Fram kemur í dómnum að maðurinn hafi ekið á 162 kílómetra hraða á klukkustund þar sem 90 km/klst. er hámarkshraði í júní 2016 án ökuréttinda. Bifreiðin hafi verið í ónothæfu ástandi vegna ástands hemla á vinstra framhjóli, verulega þunnra hemlaklossa í afturhjólum, ryðmyndunar í hemladisk hægra megin að aftan og óvirks höggdeyfis og vanstilltra lega. Bifreiðin hafi enn fremur verið án lögboðinna ökuljósa.
Maðurinn var að aka um Öxnadalsheiði skammt vestan við Grjótá þegar hann ók aftan á aðra bifreið, sem ekið var í sömu átt, sem við það kastaðist framan á smárútu sem ekið var austur sama veg á móti báðum bifreiðunum. Enn fremur segir í dómnum að maðurinn hafi játað brotið en hann eigi að baki langan sakaferil. Hann var sviptur ökuréttindum í eitt ár og enn fremur gert að greiða málskostnað upp á tæpa 1,3 milljónir króna.