Hjón sátu föst í bíl sínum á veginum austan Þingvallavatns í 20 klukkustundir þar til í morgun að landvörður í þjóðgarðinum kom að þeim. Konan er ólétt og var hún flutt í skjól í þjónustumiðstöðinni.
Guðjóna Björk Sigurðardóttir, rekstrarstjóri Þingvallaþjóðgarðs, segir að samstarfsmaður hennar hafi fyrstur ekið fram á bíl parsins, þar sem hann sat fastur skammt frá Miðfelli, snemma í morgun. Um erlenda ferðamenn var að ræða og var fólkið á jepplingi og hafði hafst við í bílnum frá því að það festi sig snemma í gærdag. „Þau voru með mat og svefnpoka en konunni var samt orðið kalt svo landvörðurinn skutlaði henni í þjónustumiðstöðina,“ segir Guðjóna sem kom á vettvang skömmu síðar.
Hún segir að svo virðist sem fólkinu hafi ekki tekist að láta vita af sér. Eiginmaðurinn varð eftir í bílnum sem situr fastur á miðjum veginum og því ekki óhætt að skilja hann eftir eftirlitslausan. Búið er að láta Vegagerðina vita. „Það er kolófært þarna,“ segir Guðjóna sem komst þó akandi á jeppa sínum um veginn í morgun. Enn var rafmagn á bílnum. „Vandinn var bara sá að hann er alveg pikkfastur.“