Innbrotsþjófurinn var „pollrólegur“

Innbrotsþjófurinn á gólfinu inni í húsinu.
Innbrotsþjófurinn á gólfinu inni í húsinu. Ljósmynd/Aðsend

„Manni er náttúrulega mjög brugðið að sjá einhvern skríða um heimilið sitt og fara skítugum sólum og höndum um hlutina sína,“ segir Freysteinn G. Jónsson.

Eiginkona hans Björg Kjartansdóttir setti mynd á Facebook-síðu sína í gærkvöldi af innbrotsþjófi liggjandi á gólfinu á heimili þeirra í Rauðagerði í Reykjavík. Hann hafði spennt upp baðherbergisglugga og komist þannig inn. Óskaði hún eftir upplýsingum um hver þetta væri. 

Stal skartgripum 

Eftirlitsmyndavél kom auga á þjófinn en þau hjónin voru stödd erlendis er hann braust inn um hálfníuleytið í gærkvöldi. Samtals var hann í hálftíma inni í íbúðinni. Að sögn Freysteins er þjófavarnarkerfi í húsinu og fór það í gang án þess að fæla þjófinn í burtu. Ekki er ljóst hvers vegna það tók Securitas eða lögreglu svona langan tíma að komast á vettvang. Í millitíðinni skreið maðurinn um heimilið og hafði með sér skartgripi og dýra smáhluti, samkvæmt upplýsingum frá systur Bjargar.

„Eftir því sem við best vitum er hann ekki að ganga um og brjóta og bramla og skemma. Hann er alveg pollrólegur og hallar sér á bak inni á stofugólfinu og er að virða fyrir sér heimilið.“

Innbrotsþjófurinn liggur á gólfinu.
Innbrotsþjófurinn liggur á gólfinu. Ljósmynd/Aðsend

Sást á vappi í nágrenninu

Aðspurður segir Freysteinn að þau hjónin hafi fengið mikil viðbrögð við myndinni á Facebook og hefur henni verið deilt tæplega tvö þúsund sinnum. Ein manneskja hefur þegar skrifað þeim og sagst hafa séð manninn á vappi í hverfinu. Hann hafi meðal annars tekið í hurð á frístundaheimili sem er í nágrenninu.

„Hann er búinn að vera að kanna aðstæður greinilega,“ segir hann og er nokkuð viss um að þjófurinn hefði aldrei farið inn í húsið hefði hann vitað að þau væru þar inni.

Það hefur einu sinni áður gerst að innbrotsþjófur hefur brotist inn til þeirra hjóna. Þá var hann tíu sekúndur inni í húsinu og lét sig hverfa um leið og þjófavarnarkerfið fór í gang.

Freysteinn tekur fram að nágrannaeftirlitið í hverfinu þeirra, sérstaklega í Rauðagerði, sé mjög gott og vonast hann til þess að þjófurinn finnist sem allra fyrst. Málið er nú í höndum lögreglunnar. 

mbl.is/Hjörtur
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert