Ingibjörg Ósk Birgisdóttir, 2. varaforseti ASÍ og stjórnarmaður í VR, segir umræðu Ragnars Þórs Ingólfssonar, formanns VR, í garð forseta ASÍ vera furðulega.
Ragnar Þór hefur talað um að hann geti ekki starfað með Gylfa og verði ný stjórn Eflingar kosin verði Gylfa ekki sætt lengur í embætti forseta.
„Umræðan af hans hálfu í garð Gylfa hefur verið mjög furðuleg,“ segir Ingibjörg Ósk og kveðst ekki hafa orðið vör við það í kosningabaráttu Ragnars Þórs fyrir ári að hann hafi viljað koma Gylfa frá völdum.
Spurð út í ummæli Ragnars Þórs við Morgunblaðið í gær um að atkvæðagreiðsla um mögulega úrsögn VR úr ASÍ muni líklega fara fram í haust segist Ingibjörg Ósk vera algjörlega mótfallin því að VR fari úr ASÍ. „Ég er hlynnt samvinnunni og samstöðunni,“ segir hún.
Samþykkt var á fundi trúnaðarráðs VR í gærkvöldi að halda áfram að skoða hugmyndir um að VR stofni húsnæðisleigufélag.
„Þetta er á teikniborðinu. Það þarf að vinna þetta mjög vel áður en endanleg ákvörðun er tekin,“ segir Ingibjörg Ósk.
Miðað við hve málið er stórt á hún von á því að það fari í almenna kosningu hjá félagsmönnum um hvort farið yrði í slíkan rekstur.
Í síðustu viku greindi Fréttablaðið frá hugmyndum um að nýta sjóði VR til að koma leigufélagi á fót sem myndi leigja íbúðir á 15 til 30 prósenta lægra verði en gengur og gerist á almennum leigumarkaði.
Fram kom á vefsíðu VR í gær að 27 einstaklingar hefðu boðið sig fram í stjórn félagsins. Að sögn Stefáns Sveinbjörnssonar, framkvæmdastjóra VR, eru þetta fleiri umsækjendur en verið hefur.
Framboðsfresturinn rann út síðastliðinn föstudag. Kosið verður til sjö sæta í stjórn VR og þriggja í varastjórn í byrjun mars. Nákvæm dagsetning hefur ekki verið ákveðin en kosningunum á að vera lokið fyrir 15. mars.