Héraðsdómur Vestfjarða dæmdi í gær þrjá karlmenn til greiðslu sekta fyrir að brjóta gegn lögum um náttúruvernd og auglýsingu um friðland á Hornströndum með því að hafa 28. maí 2016 dvalið í vikutíma í Hornvík án þess að tilkynna það til Umhverfisstofnunar.
Tveir mannanna voru dæmdir til þess að greiða 50 þúsund krónur í sekt og sá þriðji 75 þúsund krónur en hann var einnig dæmdur fyrir að hafa haft meðferðis skotvopn án þess að hafa heimild til þess frá sýslumanni. Mönnunum var einnig gert að greiða verjenda sínum málskostnað og annan kostnað upp á rúmar 327 þúsund krónur hver.
Málið vakti talsverða athygli á sínum tíma en mennirnir voru upphaflega sakaðir um veiðiþjófnað en niðurstaða rannsóknar lögreglunnar var sú að ákæra ekki á þeim grundvelli. Mennirnir neituðu að sætta sig við sektargreiðslur og því fór málið fyrir dóm.
Mennirnir neituðu sök og sögðust ekki hafa vitað að þeir þyrftu að tilkynna ferðir sínar til Umhverfisstofnunar. Þeir vissu ennfremur ekki til þess að þeir sem leggðu leið sína í friðlandið hefðu gert það. Sögðust þeir hafa verið við eggjatöku í friðlandinu.
Hvað skotvopnið varðar sögðu mennirnir að það hefði verið haft með af öryggisástæðum þar sem ísbirnir ættu það til að ganga á land á þessum slóðum. Byssan hefði aðeins verið notuð til þess að skjóta einn sel úti á sjó en annars geymd í tösku.
Eigandi byssunnar bar því við að hann væri með gilt byssuleyfi og ekki talið sig hafa þurft á viðbótarleyfi frá sýslumanni til þess að fara með hana í friðlandið. Mennirnir lýstu þeirri afstöðu sinni að umrædd auglýsing um friðæandið væri ekki í gildi.
Héraðsdómur hafnaði því að auglýsingin væri ekki í gildi og ennfremur því að mönnunum hefði ekki getað verið hún ljós. Auglýsingin hafi verið birt með lögformlegum hætti árið 1985. Þá stoðaði þá ekki að vísa í að aðrir hefðu hugsanlega brotið gegn henni.