Hans Steinar Bjarnason hefur verið ráðinn upplýsingafulltrúi SOS Barnaþorpanna á Íslandi.
Þetta kemur fram á vef félagsins. Þar segir ennfremur, alls hafi borist 61 umsókn um starfið.
Fram kemur, að Hans Steinar hafi víðtæka reynslu úr fjölmiðlum, nú síðast sem íþróttafréttamaður á RÚV. Áður gegndi hann starfi íþróttafréttamanns og þáttastjórnanda á Stöð 2, Stöð 2 Sport og Sýn sem og dagskrárgerðarmanns og útsendingastjóra í útvarpi og sjónvarpi svo fátt eitt sé nefnt.
„Það hefur í talsverðan tíma blundað í mér að fást við nýjar áskoranir eftir rúm 28 ár í fjölmiðlabransanum,“ er haft eftir Hans Steinari í tilkynningunni.
Fráfarandi upplýsingafulltrúi SOS Barnaþorpanna, Sunna Stefánsdóttir, lætur af störfum í lok febrúar og hverfur þá til starfa hjá Garðabæ.