Um 400 skjálftar á 12 tímum

Á töflunni sést hversu þétt skjálftahrinan er.
Á töflunni sést hversu þétt skjálftahrinan er. Skjáskot/Veðurstofa Íslands

Frá miðnætti hafa orðið yfir 240 jarðskjálftar við Grímsey. Síðustu tólf tímana eru þeir líklega yfir 400. Þeir stærstu hafa verið 3-3,2 stig en flestir eru þeir á bilinu 1-2 að stærð. Skjálftarnir eru austnorðaustur af eyjunni á þekktu skjálftasvæði. Engin merki um gosóróa er að sjá á mælum Veðurstofunnar.

Skjálftahrina hófst á svæðinu í lok janúar en frá því í gærkvöldi hafa þeir orðið mjög þétt, eins og sjá má á meðfylgjandi töflu hér að ofan.

Stærsti skjálftinn varð klukkan 18.38 gær og mældist hann 3,2 stig. Skjálfti sem mældist 3 stig varð svo laust eftir klukkan 1 í nótt.

Gunnar Guðmundsson, sérfræðingur Veðurstofu Íslands, segir skjálftana flesta á svipuðu svæði, í sigdal vestarlega í Skjálfandadjúpinu. „Þarna eru mörg misgengi og það eru líklega ný og ný misgengi að opnast þarna,“ segir hann um ástæður skjálftanna. Hins vegar sé þarna einnig mikið jarðhitasvæði svo samverkandi öfl gætu verið að verki. Þá hafi einnig verið eldvirkni norður af svæðinu í fortíðinni. 

Gunnar segir að svæðið sé svokallað sniðreksbelti sem kallast Grímseyjarbeltið og er hluti af Tjörnesbeltinu. Á Grímseyjarbeltinu sé mesta rek svæðisins. „Mér finnst þetta minna á skjálftahrinu á Hengilsvæðinu á árunum 1994 til 1998. Þar voru stöðugar hrinur í 1-2 daga sem tóku sig svo upp aftur og aftur.“

Hann segir erfitt að átta sig nákvæmlega á hver meginorsök skjálftanna sé. „Það eru mjög oft skjálftar á þessu svæði,“ segir hann og bætir við að af þeim sökum séu Grímseyingar mjög vanir hreyfingunum og kippi sér sjálfsagt ekki upp við smáskjálftana. 

Ekkert lát virðist vera á jarðskjálftunum. „Það gætu því haldið svona hrinur áfram,“ segir Gunnar. Hann segir að síðustu tvær nætur hafi skjálftunum fjölgað um tíma og þróunin gæti orðið svipuð áfram. „En auðvitað tekur þetta svo enda.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert