Bandalag háskólamanna, BHM, hefur beðið um nánari greiningu á tölum Vinnumálastofnunar um fjölda háskólamenntaðra á atvinnuleysisskrá en þeir eru yfir 1.100 talsins.
„BHM hefur bent á þessar tölur nokkuð lengi og það hefur legið ljóst fyrir að atvinnuleysi á meðal háskólamenntaðra hefur staðið í stað undanfarin ár. Nú eru háskólamenntaðir 26% af atvinnulausum á Íslandi,“ segir Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM.
Hún segir að greina þurfi tölurnar, ekki bara út frá menntun heldur einnig kyni, aldri og hversu lengi fólk hefur verið á atvinnuleysisskrá. Einnig væri gagnlegt að sjá hvað verður um fólk sem fullnýtir bótarétt sinn.
„Því miður kemur þetta okkur ekki á óvart. Þetta er eitthvað sem við höfum vitað og haft vaxandi áhyggjur af,“ bætir hún við um tölur Vinnumálastofnunar. „Við fögnum því að Vinnumálastofnun sé að beina sjónum sínum að háskólamenntuðum. Við höfum verið þeirrar skoðunar að þeim hafi ekki sinnt miðað við þörfina sem hefur verið.“
Þórunn bendir á að háskólamenntun ein og sér tryggi mönnum ekki starf við hæfi og fólk sé eflaust farið að átta sig á því. Hún segir mjög mikilvægt fyrir einstaklinga sem fari í háskólanám og samfélagið í heild sinni að fjárfesting í slíku námi beri sig. Þá umræðu þurfi að taka í framhaldinu og á breiðari vettvangi.
Gissur Pétursson, forstjóri Vinnumálastofnunar, greindi frá því í samtali við mbl.is í gær að ein ástæðan fyrir þessum aukna fjölda háskólamenntaðra á atvinnuleysisskrá væri sú að góð staða í atvinnulífinu skili sér ekki til háskólamenntaðra. Einnig nefndi hann aukinn fjölda háskólamenntaðra sem fer í nám sem aðra ástæðu.
„Eftir hrun voru skólarnir opnaðir og sem betur fer gaf það mjög mörgum tækifæri til þess að fara í nám í stað þess að lenda í atvinnuleysi. Það sem hefur síðan gerst er að uppgangurinn í samfélaginu hefur orðið mestur í ferðaþjónustu og ég fæ ekki séð að þar séu mörg störf í boði fyrir háskólamenntaða. Meirihluti krefst væntanlega ekki sérfræðimenntunar,“ greinir Þórunn frá.
Hún segir stöðuna sem er uppi snúast um námsval að einhverju leyti. Íhuga þurfi af alvöru hvort ekki þurfi að gera ungu fólki betur grein fyrir því hver staðan er á vinnumarkaði og hvernig mannaflaspár séu þannig að hægt sé að sjá betur hvar vantar fólk og hvar ekki. „Það myndi vonandi auðvelda ungu fólki að taka ákvörðun um hvað það vilji nema,“ segir hún en tekur fram að hún sé ekki að tala um stýringu heldur aukna fræðslu.
Í bréfinu sem Gissur skrifaði til forstöðumanna ríkisstofnana og framkvæmdastjóra sveitarfélaga benti hann á þann möguleika að ráða háskólamenntaða atvinnuleitendur til sumarstarfa með fjárstyrk frá Vinnumálastofnun. Þórunn telur að það muni ekki leysa vandann og býst við að eiga fund með Vinnumálastofnun í næstu viku vegna stöðunnar sem er uppi.