„Þetta er búinn að vera nokkuð langur ferill,“ segir Sturla Böðvarsson, bæjarstjóri í Stykkishólmi, en hann hefur ákveðið a gefa ekki kost á sér í komandi sveitarstjórnarkosningum. Sturla hóf stjórnmálaferil sinn fyrir 44 árum en hann hefur verið bæjarstjóri, þingmaður og ráðherra.
Sturla hætti þingmennsku árið 2009 eftir 18 ára þingsetu. Áður var hann bæjarstjóri í Stykkishólmi 1974 - 1991 og má því segja að hann hafi lokað hringnum. „Ég féllst á það árið 2014 að fara í framboð en ég gerði aldrei ráð fyrir því að það yrði nema eitt kjörtímabil. Nú er því að ljúka og þar með liggur þessi ákvörðun fyrir,“ segir Sturla.
Hann segir að það sé ekki erfitt að hætta og hlær þegar hann er spurður hvort honum líði eins og íþróttamanni sem leggur skóna á hilluna að loknum löngum ferli. „Við höfum náð góðum árangri og að því leyti er gott að standa upp og gefa nýju fólki tækifæri. Ég tel að við skilum góðu búi og það skiptir máli,“ segir Sturla og bætir við að það hafi tekist að snúa við þróun í Stykkishólmi en áður en hann tók við tækkaði fólki í bænum.
„Fólki hefur fjölgað verulega á kjörtímabilinu og það er næg atvinna. Unga fólkið er að snúa aftur svo rækilega að við urðum að stækka leikskólann.“
Spurður um næstu skref segist Sturla ætla að taka til í hillunum hjá sér og rifja upp hvað hann hefur gert. „Það er aldrei að vita nema ég komi einhverju á blað,“ segir Sturla sem veit ekki hvort hann muni gefa út endurminningar:
„Ég hef ekki fest neitt niður en þegar ég skoða og fer yfir farinn veg fer finnst mér ástæða til að rifja aðeins upp og geyma, hvað sem verður.“
Hann segir að margt standi upp úr eftir langan feril og tekur fram að það sé mjög skemmtilegt að vera bæjarstjóri í samfélagi eins og Stykkishólmi. Hvað landsmálin varðar segir Sturla að eftirminnilegasta atvikið hafi verið þegar hann sprengdi fyrstu sprengjuna að Héðinsfjarðargöngum.
„Það er sérstaklega ánægjulegt að horfa til þess hversu afgerandi áhrif Héðinsfjarðargöng hafa haft á byggðina í Siglufirði og Ólafsfirði. Þegar við tókum ákvörðun og ég lagði fyrir þing og ríkisstjórn að setja göngin inn í samgönguáætlun var maður stoppaður úti á götu og skammaður. Það væri óðs manns æði að bora inni í fjöll í firði sem væri að tæmast!“