Hjónin Nasr Mohammed Rahim og Sobo Answar Hasan og sonur þeirra Leo, fengu þær góðu fréttir í vikunni að þýsk yfirvöld hafi ákveðið að endurskoða umsókn þeirra um alþjóðlega vernd í Þýskalandi. Fjölskyldan var rekin héðan frá landi í lok nóvember og hefur síðan beðið á milli vonar og ótta í Þýskalandi um að fá alþjóðlega vernd þar.
Sema Erla Serder greinir frá þessu í færslu á Facebook síðu sinni. Fjölskyldunni hafði verið synjað um hæli á Íslandi og þar áður í Þýslandi. Sobo, sem er þunguð, lá inni á spítala um vegna verkja og blæðinga áður en þau voru flutt úr landi.
„Mér er bæði ljúft og skylt að segja ykkur frá því að þær frábæru fréttir voru að berast frá Þýskalandi að yfirvöld þar í landi hafa ákveðið að endurskoða umsókn Leo litla og fjölskyldu hans um alþjóðlega vernd í Þýskalandi eftir að hafa áður neitað þeim um vernd.
Það eru því meiri líkur en minni á að þar fái þau að vera og búa sér og fjölskyldu sinni til fallega framtíð eftir að hafa lifað með brottvísun yfir höfði sér í hálfgerðum fangabúðum síðustu mánuði. Eftir mikla óvissu, óöryggi, ómannúðlega og óásættanlega meðferð íslenskra yfirvalda - sem ekki mun gleymast - og mjög erfiða tíma heilsast Leo litla, sem bráðum mun verða stóri bróðir, móður hans og föður loksins vel.
Við höldum áfram að fylgjast með máli þeirra í Þýskalandi sem þó er ekki lokið, en þetta er vissulega skref í rétta átt. Vonandi fá þau það frelsi og þann frið í hjarta sem þau eiga skilið fyrr en síðar og geta farið að njóta lífsins eftir hátt í þrjú ár á flótta,“ skrifar Sema á Facebook.