Vigdís Hauksdóttir, oddviti Miðflokksins í Reykjavík, segist stefna að því að flokkurinn nái 4-6 borgarfulltrúum í komandi sveitarstjórnarkosningum. Þá fari hún fram sem borgarstjóraefni flokksins og vilji verða borgarstjóri Reykjavíkur. Þetta var meðal þess sem kom fram í þættinum Víglínunni á Vísi í dag.
Vigdís sagði að leitað hafi verið til hennar fyrir síðustu þingkosningar að bjóða sig fram fyrir Miðflokkinn, en að hún hafi ekki getað hugsað sér það. Það hafi alveg verið búið á „alþingisbatteríinu“ hjá henni. Vísaði hún til þess að þingmenn upplifðu sig sem stimpilpúða fyrir framkvæmdavaldið og að erfitt væri að koma málum í gegnum þingið sem ekki væri búið að semja um milli flokka. Sagði hún þingið í raun óskilvirkt við að koma málum áleiðis.
Hún hafi hins vegar alltaf fylgt Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, formanni Miðflokksins, að málum þegar þau voru saman í Framsóknarflokknum og því þyrfti enginn að efast um að þau yrðu þéttir samherjar í Miðflokknum.
Framboðsfrestur fyrir þá sem vildu taka sæti á lista flokksins í Reykjavík rann út á hádegi og sagðist Vigdís búast við að sex efstu á listanum yrðu kynntir um næstu helgi.
Spurð um helstu markmið flokksins í kosningunum sagði hún að það væri að „hrista upp í borgarmálunum, taka á skuldastöðunni“ og að flokkurinn væri það stór að hann gæti leitt næsta meirihluta í borginni.
Ítrekaði hún skuldamálin og sagði að flokkurinn myndi ekki leggja fram dýr kosningaloforð nema koma með sparnaðartillögur á móti. Þá færu fyrstu þrír mánuðir eftir kosningar í að skilgreina lögbundið hlutverk borgarinnar og athuga í kjölfarið hvort útsvarstekjur væru að skila sér í þá málaflokka sem þeir eigi að gera. Spurð hvort hún stefni að því að verða borgarstjóri sagðist hún vera borgarstjóraefni flokksins og fékk þá spurningu í kjölfarið hvort hún vildi verða borgarstjóri. Svarið lét ekki á sér standa: „Já“.