Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra veitti í dag gestum Þjóðminjasafnsins leiðsögn undir yfirskriftinni Galdrar, glæpir og glæfrakvendi. Nokkur fjöldi fólks var mættur til að hlýða á Katrínu, en tilefni viðburðarins er 100 ára fullveldisafmæli Íslands.
Af þeim sökum stendur Þjóðminjasafn Íslands fyrir sérstakri dagskrá á sýningum safnsins á Suðurgötu. Fær safnið valinkunna einstaklinga til að veita leiðsögn og ræða við safngesti um hugðarefni sín.
Katrín hefur sjálf mikinn áhuga á glæpasögum hvers konar og voru þær viðfangsefni BA-ritgerðarinnar hennar. Nefndist ritgerðin Glæpurinn sem ekki fannst: Saga og þróun íslenskra glæpasagna. Þá var Katrín í dómnefnd Ísnálarinnar í ár, verðlauna sem veitt eru fyrir best þýddu glæpasöguna.