Siðmennt, félag siðrænna húmanista á Íslandi, hvetur Alþingi til þess að samþykkja frumvarp um bann við umskurði drengja.
Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, hefur lagt fram drög að frumvarpi um breytingu á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940, 218. gr. a. þar sem segir: „Hver sem með líkamsárás veldur tjóni á líkama eða heilsu stúlkubarns eða konu með því að fjarlægja kynfæri hennar að hluta eða öllu leyti skal sæta fangelsi allt að 6 árum.“ Breytingin sem lögð er til er að orðinu „stúlkubarn“ verði breytt í „barn“ og nái því til drengja og stúlkna.
Frétt mbl.is: Umskurður brot á réttindum drengja
Í umsögn Siðmenntar um frumvarpið segir að Siðmennt hafi skýra sýn á málið. „Þar sem um er að ræða alvarlegt og óafturkræft inngrip er óásættanlegt að börn undir lögaldri séu umskorin,“ segir í umsögninni. Þá er vísað í lög um bann við umskurði kvenna sem var samþykkt á Alþingi árið 2005.
Félagið er þó þeirrar skoðunar að lögráða einstaklingar eigi að geta óskað eftir umskurði eftir upplýsta skoðun og ákvörðun þar um. „Rétt er að taka fram að í þeim tilfellum sem umskurður er framkvæmdur t.d. af heilsufarsástæðum eða af lögráða einstaklingi skuli hann framkvæmdur af sérfræðingi á heilbrigðissviði,“ segir jafnframt í umsögn Siðmenntar.
Þá er vísað í umsagnir umboðsmanns barna og læknasamtaka víða um heim, sem hafa lagst gegn umskurði drengja. „Þessar raddir undirstrika mikilvægi þess að gæta hagsmuna barna í hvívetna,“ segir í umsögninni.