Íbúar ætla sjálfir að hefja vegagerð

Íbúar segja að vegurinn sé ónýtur.
Íbúar segja að vegurinn sé ónýtur. Ljósmynd/Eyþór Hannesson

„Við ætlum að hittast á morgun og ætlum að vekja athygli á því að það er búið að ýta þessum vegi af samgönguáætlun það lengi að við þurfum að sýna stjórnvöldum hvernig á að byrja á þessu verki.

Þetta segir Eyþór Stefánsson í samtali við mbl.is. Hann er einn af skipuleggjendum viðburðar sem nefnist á Facebook „Borgfirðingar byggja veg!

Vilja að stjórnvöld geri eitthvað

Íbúar á Borg­ar­f­irði eystra hafa mikið kvartað und­an mal­ar­veg­inum sem ligg­ur yfir Vatns­skarð og að firðinum. Að þeirra sögn verður veg­ur­inn gjör­sam­lega ónýt­ur, sér­stak­lega á sumr­in og í bleytu.

„Við ætlum að koma saman í Njarðvíkurskriðum og steypa yfir veginn. Við erum búin að redda steypu og ætlum að steypa yfir smá hluta,“ segir Eyþór en atburðurinn á að vera táknrænt ákall til stjórnvalda um að gera eitthvað í málunum.

Fjallað var um veginn yfir Vatnsskarð síðasta sumar en þá sagði Hafþór Snjólf­ur Helga­son, formaður Ferðamála­hóps Borg­ar­fjarðar, meðal annars að ástandið á Borgarfjarðarvegi væri Austurlandi til skammar.

Eina leiðin úr bænum er á möl

Eyþór bendir á að vegamálastjóri hafi oft sagt að ekki sé hægt að halda við malarvegum þar sem umferð fer yfir 300 bíla á sólarhring. „Á sumrin keyra eitthvað í kringum 400 bílar veginn á sólarhring,“ segir Eyþór og bætir við að það sé ekki hægt að komast frá Borgarfirði nema á malarvegi en í öllum öðrum byggðarkjörnum sé hægt að komast á slitlagi í einhverja átt.

Hluti af veginum er kafli af bundnu slitlagi sem er gríðarlega ósléttur. „Þetta er lélegasti malbikskafli á landinu og þessi veghluti er í raun alveg ónýtur,“ segir Eyþór. 

Hann segir að mikil stemning sé í bænum fyrir atburðinum á morgun og fólk vilji minna þingmenn á að gera þurfi átak í samgöngumálum fyrir Borgarfjörð eystri.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert