120 grísaskrokkar fara beint í ruslið

Unnið er að því að ryðja skrokkunum af götunni.
Unnið er að því að ryðja skrokkunum af götunni.

Búið er að opna Sæbrautina aftur eftir henni hafði verið lokað til suðurs um sjöleytið í morgun í kjölfar umferðaróhapps. Flutningskassi á flutningabíl á vegum Stjörnugríss brotnaði af í akstri og dreifðust grísaskrokkar um götuna. 120 grísaskrokkar voru í bílnum en verið var að flytja þá í Síld og fisk til frekari vinnslu.

Miklar umferðartafir urðu vegna lokunarinnar. Tók það til að mynda varðstjóra hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu um 90 mínútur að komast úr Mosfellsbæ niður á Hverfisgötu. í Facebook-færslu lögreglunnar segir að óhappið minni á hve viðkvæmt gatnakerfið sé og lítið megi út af bregða til að umferð svo gott sem stöðvist.

„Það brotnaði kassinn af bílnum. Það var ekkert flóknara en það. Við erum að ryðja kjötinu með gröfum núna í ruslagám,“ segir Geir Hlöðver Ericsson, sölustjóri hjá Stjörnugrís, sem staddur var á vettvangi í morgun.

Að hans sögn virðist sem flutningskassinn á bílnum hafi einfaldlega brotnað af þegar hann beygði úr Ártúnsbrekkunni inn á Sæbraut við mislæg gatnamót.

Miklar umferðartafir hafa orðið vegna slyssins.
Miklar umferðartafir hafa orðið vegna slyssins. mbl.is/Eggert

„Það er starfsfólk hérna frá Stjörnugrís, gröfur og allur pakkinn,“ segir Geir um aðstæður á vettvangi, en kjötið, 120 grísaskrokkar, fer allt beint í ruslið.

Hann segir þetta gríðarlegt tjón fyrir fyrirtækið sem eigi eftir að skoða frekar, en ekki er vitað nákvæmlega með hvaða hætti slysið varð.

Þegar blaðamaður náði tali af Guðbrandi Sigurðssyni, aðalvarðstjóra hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, fyrir skemmstu var hann nýmættur til vinnu, en það tók hann um 90 mínútur að komast úr Mosfellsbæ niður á Hverfisgötu. Gefur það ágætismynd af umferðartöfunum sem hafa orðið vegna slyssins í morgun. Guðbrandur segir lögreglu hafa fengið tilkynningu og beiðni um aðstoð frá bílstjóra flutningabílsins klukkan rétt rúmlega sjö í morgun um að hann hafi misst um 80 grísaskrokka úr bílnum og þeir hafi dreifst um alla götu.

Fréttin hefur verið uppfærð.

 

 

Grísaskrokkar dreifðust um götuna þegar flutningskassinn brotnaði af.
Grísaskrokkar dreifðust um götuna þegar flutningskassinn brotnaði af.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert