„Þetta verður hvellur eins og við spáðum,“ segir Þorsteinn V. Jónsson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, um storm og ofsaveður sem gengur yfir landið í dag. Veðrið mun ná hámarki um klukkan 9 suðvestanlands og þar með á höfuðborgarsvæðinu. Það lægir svo um hádegi vestanlands en þá færir óveðrið sig yfir á Norðurland um klukkan 11-12 í dag. „Það verður bálhvasst þar,“ segir Þorsteinn. Fyrst mun hvessa norðvestanlands og síðar á Norðausturlandi. „Það verður svo áfram hvassviðri og stormur á austanverðu landinu fram á nótt.“
Á vef Veðurstofunnar má finna eftirfarandi viðvörunarorð vegna veðursins:
Með morgninum fer kröpp og djúp lægð hratt til norðurs fyrir vestan land. Úrkomusvæði lægðarinnar gengur inn á Suðvesturland og hvessir þá verulega, en búist er við suðaustanstormi eða -roki víða á landinu er líður að hádegi og jafnvel ofsaveðri vestan til. Rignir talsvert á sunnanverðu landinu í dag, úrhelli að kalla suðaustan til. Slydda norðvestan til, en úrkomulítið á Norðausturlandi. Vakin er athygli á gulum og appelsínugulum viðvörunum, sem eru í gildi.
Um hádegi er lægðin er að mestu farin hjá og lægir þá ört og rofar til á vestanverðu landinu, þó áfram verði stormur og sums staðar úrkomusamt fyrir austan fram á nótt. Illviðrinu fylgja hlýindi þ.a. snjórinn heldur áfram að bráðna, en þá er vissara er að halda niðurföllum og ræsum opnum.
Á morgun er veðrið gengið niður, en í staðinn komin stíf suðvestanátt með éljum og mun lægri hitatölum. Léttir þó smám saman til fyrir norðan og austan. Á föstudag er síðan von á enn einni óveðurslægð, þó að það veður ná ekki sömu hæðum og í dag.“
Veðrinu fylgir sum sé ekki aðeins mikill vindur heldur einnig úrkoma. Nú klukkan rúmlega 6 er þegar byrjað að snjóa og víða skafrenningur, m.a. á höfuðborgarsvæðinu. „En svo fer þetta nú fljótlega yfir í rigningu á láglendi,“ segir Þorsteinn í samtali við mbl.is. Hann segir að talsvert muni rigna, sérstaklega á suðaustanverðu landinu. „Það verður mikil rigning í dag, allan daginn og fram á nótt. Það má segja að þar verði úrhellisrigning.“
Þorsteinn bendir á að enn sé frost upp á Hellisheiði og í Þrengslum. „Þar er nú skafrenningur og leiðindaveður.“ Hér getur þú fylgst með færð á vegum.
En hvernig verður veðrið á höfuðborgarsvæðinu?
„Það snjóar núna en svo fer þetta yfir í slyddu og rigningu fljótlega eða um klukkan átta og níu,“ sagði Þorsteinn klukkan rúmlega sex í morgun. „Svo verður þetta dottið niður um hádegisbilið.“ Þá verður veðrið hægt og gott en mögulega él með kvöldinu.
Hvað vindhraðann varðar hefur Veðurstofan spáð 20-28 m/s í efri byggðum á höfuðborgarsvæðinu og á Kjalarnesi. Þar hafði vindhraðinn þegar farið í 27 m/s í hviðum snemma í morgun. Þorsteinn segir að ofsaveðri, 11 vindstigum eða vindhraða yfir 28 metrum á sekúndu, sé spáð m.a. í kringum höfuðborgina, svo sem uppi á Hellisheiði. Þá má eiga von á svo miklum vindi á Kjalarnesi, undir Hafnarfjalli og Snæfellsnesi. „Svo getur getur þetta orðið mikill hvellur á norðvesturlandi þegar vindur nær sér á strik þar eftir klukkan 11 í dag.“
Þorsteinn segir að „sem betur fer gangi þetta veður tiltölulega hratt yfir“ og suðvestanlands verði það eins og fyrr segir búið í hádeginu.