„Sem betur fer fer ég til vinstri en ekki hægri. Ég beið eftir skellinum en þetta slapp fyrir horn,“ segir Gunnlaugur Helgason, sem starfar sem verkstjóri á Steypustöðinni á Selfossi.
Litlu munaði að harður árekstur yrði á Eyrarbakkavegi laust fyrir klukkan átta í morgun þegar Gunnlaugur var á leið til vinnu frá Eyrarbakka.
Að sögn Gunnlaugs missti hinn ökumaðurinn bílinn sinn upp úr hjólförunum með þeim afleiðingum að hann lenti á öfugum vegarhelmingi og stefndi beint í áttina að honum.
„Ég hafði ekki tíma til að hugsa. Þetta voru ósjálfráð viðbrögð að beygja frá. Ef ég hefði verið á stærri og þyngri bíl hefði ekki þurfti að spyrja að því.“
Gunnlaugur segir hjólförin vera djúp á Eyrarbakkavegi. Hinn ökumaðurinn hafi misst bílinn aðeins til hliðar og í slabbið, sem var um 10 til 15 sentímetrar að hans sögn. Við það lenti hann á öfugum vegarhelmingi.
Gunnlaugur kveðst hafa snúið við og stöðvað bílinn sinn eftir atvikið og reynt að gá hvort hinn bíllinn hefði farið út af veginum en sá hann hvergi.