Fasteignafélagið Reitir hefur til skoðunar að innrétta hótel í Ármúla 7. Meðal hugmynda er að tengja reksturinn við Hótel Ísland í Ármúla 9. Guðjón Auðunsson, forstjóri Reita, segir málið á hugmyndastigi. Engar ákvarðanir hafi verið teknar.
Hann staðfestir að Reitir hafi nýverið keypt tengibyggingu milli Ármúla 7 og 9. Þar var lengi veitingasala á jarðhæð og krár undir ýmsum nöfnum á efri hæð.
„Við eigum Ármúla 7 og Ármúla 9. Fyrir nokkru keyptum við tengibygginguna á milli. Hún var keypt í þeim tilgangi að rífa hana sem fyrst og koma öðru og sómasamlegra húsi í gagnið. Þá vöknuðu hugmyndir um hvort skynsamlegt væri að tengja húsin. Þ.e.a.s. að með því að setja upp herbergi í Ármúla 7 mætti nýta hagkvæmni stærðarinnar í innviðum hótelsins í Ármúla 9. Málið er enn á þeim stað,“ segir Guðjón í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.