Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar, gerði málafæð ríkisstjórnarinnar að umtalsefni í umræðum um störf þingsins á Alþingi í dag. Sagði hann þingmálaskrána ekki mjög beysna. „Ef þingið væri fiskvinnsla væri líklega búið að senda okkur heim vegna hráefnisskorts,“ sagði Þorsteinn.
Benti hann á að í málefnaskrá ríkisstjórnarinnar væri gert ráð fyrir að búið væri að leggja fram 86 mál eða frumvörp í lok febrúar. Nú, þegar febrúar er senn á enda, væru hins vegar einungis þrjátíu mál komin fram frá ríkisstjórninni.
Eru það um helmingi færri mál en ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar hafði lagt fram eftir jafnlangan tíma í embætti, og sagði Þorsteinn þá stjórn þó hafa verið gagnrýnda fyrir verkleysi af þingmönnum Framsóknarflokks og Vinstri grænna.
Minnti hann á að stutt væri eftir af vorþingi enda færi þing snemma í frí vegna sveitarstjórnakosninga auk þess sem tveggja vikna páksaleyfi þingsins væri á næstu grösum.