2 milljóna króna bótakrafa í máli Houssin

Rannsókn í máli Houssin Bsraoi er sögð á lokametrunum hjá …
Rannsókn í máli Houssin Bsraoi er sögð á lokametrunum hjá Lögreglunni á Suðurlandi. mbl.is/Sigmundur Sigurgeirsson

Bótakrafa að fjárhæð 2 milljóna króna liggur fyrir í máli Houssin Bsraoi sem varð fyrir alvarlegri líkamsárás í íþróttahúsinu á Litla-Hrauni í janúar. Lilja Margrét Olsen, réttargæslumaður hans, telur ólíklegt að túlkur hafi verið viðstaddur við þegar honum var vísað úr landi á þriðjudaginn.

Lykilvitni sem árásarþoli

Lilja sagði í viðtali í kvöldfréttum Rúv að hér sé mál í gangi í kerfinu þar sem Houssin, sem kom hingað sem hælisleitandi, sé lykilvitni sem árásarþoli. Samkvæmt sakamálalögum verði hann að vera staddur hér á dómþingi til þess að bera vitni í málinu.

Kom ekki allt fram í lögregluskýrslunni

Lilja Margrét Olsen.
Lilja Margrét Olsen. Ljósmynd/Katla lögmenn

„Lögregluskýrsla hefur aldrei sama sönnunargildi í sakarmáli eins og ef vitni mætir fyrir framan dómara og lýsir atburðum,“ segir Lilja í samtali við mbl.is og bendir á að það sé því mikilvægt að Houssin fái tækifæri til þess. Ekki síst vegna þess að hún segir ekki allt hafa komið fram í þeirri skýrslu sem tekin var af honum.

En að sögn Lilju liggur fyrir bótakrafa í málinum fyrir hann að fjárhæð 2 milljónir króna. „Við lít­um mjög al­var­leg­um aug­um á þessa lík­ams­árás. Þetta var gróf og al­var­leg árás,“ sagði Elís Kjart­ans­son, lög­reglu­full­trúi hjá lög­regl­unni á Suður­landi, í samtali við mbl.is þegar málið kom upp. 

Telur ólíklegt að hann hafi skilið hvað var í gangi

Í tilkynningu frá Útlendingastofnun segir að Houssin hafi verið boðið að haft yrði sam­band við verj­anda hans eða aðra þegar hann var upp­lýst­ur um ferðaáætl­un­ina, en hann hafi ekki óskað eft­ir að haft yrði sam­band við neinn fyr­ir sína hönd. „Hann hafði aðgang að síma til að geta sjálf­ur haft sam­band við þá sem hann vildi,“ seg­ir í til­kynn­ingu stofn­un­ar­inn­ar.

Lilja telur hins vegar afar ólíklegt að skjólstæðingur hennar hafi áttað sig á því hvað stæði til þar sem hvorugur þeirra aðila sem túlkað hafa fyrir hann hingað til var viðstaddur brottflutninginn. 

Aðspurð segist Lilja ekki hafa náð tali af skjólstæðingi sínum eftir að hann var fluttur úr landi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert