Bjarni: Yfirlýsingar Miðflokksins „innihaldslaust blaður“

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra. mbl.is/Eggert

Fjár­málaráðherra seg­ir að það sé að koma í ljós að yf­ir­lýs­ing­ar Miðflokks­ins fyr­ir þing­kosn­ing­arn­ar hafi verið gjör­sam­lega inni­halds­laus­ar. „Hug­mynd­in um að það væri hægt að af­henda ís­lensk­um al­menn­ingi einn þriðja af Ari­on banka [...] þær voru inni­halds­laust blaður.“

Þetta kom fram í óund­ir­bún­um fyr­ir­spurn­ar­tíma á Alþingi í dag.

Birg­ir Þór­ar­ins­son, þingmaður Miðflokks­ins, var máls­hefj­andi. Hann sagði að kaup vog­un­ar­sjóða á hlut rík­is­ins í Ari­on banka væri út­hugsuð flétta af fær­ustu sér­fræðing­um. Upp­hafið væri samþykkt hlut­hafa­fund­ar Ari­on banka um kaup á eig­in bréf­um.

Snilld núm­er eitt, tvö og þrjú

„Síðan til­kynna þeir rík­inu að þeir vilji virkja hlut­hafa­sam­komu­lagið frá 2009 og kaupa hlut rík­is­ins á gjaf­verði. Samþykkt hlut­hafa­fund­ar um kaup á eig­in bréf­um gaf vog­un­ar­sjóðunum heim­ild til að nota pen­inga bank­ans til þess að kaupa bréf­in. Þeir þurfa því ekki leggja út fyr­ir kaup­un­um. Þetta er snilld núm­er eitt,“ sagði Birg­ir.

Birgir Þórarinsson, þingmaður Miðflokksins.
Birg­ir Þór­ar­ins­son, þingmaður Miðflokks­ins.

Hann sagði jafn­framt, að þega búið væri að kaupa ríkið út gætu vog­un­ar­sjóðirn­ir gert það sem þeir vilja við eig­ur  bank­ans. „Hlut­ur þeirra stækk­ar og verður verðmæt­ari. Þetta er snilld núm­er tvö.“

Birg­ir sagði enn­frem­ur, að síðan hæf­ust þeir handa við að búta bank­ann niður og selja verðmæt dótt­ur­fé­lög út úr bank­an­um eins og Valitor og Stefni sjóðstýr­ingu, en Birg­ir benti á að Stefn­ir væri verðmæt­asta eign bank­ans. 

„Þegar þetta er í höfn stend­ur eft­ir beina­grind­in sem líf­eyr­is­sjóðirn­ir kaupa síðan. Þetta er snilld núm­er þrjú,“ sagði þingmaður­inn. 

Krefst rann­sókn­ar

„Hæst­virt­ur fjár­málaráðherra, þú ert gæslumaður rík­is­sjóðs í umboði Alþing­is. Sérðu ekki veisl­una,“ spurði Birg­ir einnig. Hann sagði að ráðherra ætti að láta stjórn bank­ans boða til hlut­hafa­fund­ar strax þar sem eitt mál yrði á dag­skrá, eða að aft­ur­kalla heim­ild bankas til að kaupa eig­in bréf í því augnamiði að rann­saka hvort þetta stæðis lög. Rann­saka ætti hæfi stjórn­enda og hvaða áhrif það hefði á fjár­mála­kerfið að taka svo mikið eigið fé út úr bank­an­um. 

„Ég er þess full­viss, að vog­un­ar­sjóðirn­ir muni aft­ur­kalla kauprétt á hlut rík­is­ins þegar þeir sjá að þeir þurfi að borga fyr­ir hann úr eig­in vasa en ekki með fé bank­ans,“ sagði Birg­ir og spurði ráðherra hvort hann myndi beita sér í mál­inu. 

Bjarni benti á, að fyr­ir hönd rík­is­ins hefði verið greitt at­kvæði gegn því á hlut­hafa­fundi að bank­inn fengi heim­ild til þess að kaupa eig­in bréf. Ríkið fari aðeins með 13% eign­ar­hlut og það sé mat Banka­sýslu rík­is­ins að það sé óum­deild­ur ein­hliða kauprétt­ur á hlut rík­is­ins. 

Eng­in inni­stæða fyr­ir yf­ir­lýs­ing­um Miðflokks­ins

„Ég tek eft­ir því að hátt­virt­ur þingmaður seg­ir að gengið sem um ræðir í viðskipt­un­um sé gjaf­verð, og mig lang­ar til þess að biðja hann um að út­lista það aðeins bet­ur hvernig hann al­mennt legg­ur mat á virði fjár­mála­fyr­ir­tækja, vegna þess að hann virðist bú­ast yfir nán­ari grein­ing­um á virði bank­ans,“ sagði Bjarni.

„Yf­ir­lýs­ing­ar Miðflokks­ins fyr­ir kosn­ing­ar voru gjör­sam­lega inn­halds­laus­ar. Hug­mynd­in um að það væri hægt að af­henda ís­lensk­um al­menn­ingi einn þriðja af Ari­on banka, banka sem að ríkið yfir höfuð átti ekk­ert, myndi þurfa að borga 60-70 millj­arða til að eign­ast þann hlut, þær voru inni­halds­laust blaður. Eng­in inni­stæða fyr­ir því,“ sagði Bjarni.

Bjarni sagði enn­frem­ur, að það þýddi ekk­ert að koma mörg­um mánuðum eft­ir kosn­ing­ar og blása upp moldviðri um hluti sem hefðu legið fyr­ir í samn­ing­um í mörg ár, og væru hluti af aðgerðum stjórn­valda sem hefðu heppn­ast vel, til að breiða yfir „gjör­sam­lega mis­lukkaða kosn­inga­stefnu Miðflokks­ins, sem nú er að renna upp fyr­ir mönn­um að eng­in inni­stæða var fyr­ir.“

Arion banki.
Ari­on banki. mbl.is/​Eggert

„Það sjá það all­ir“

Birg­ir sagði að verðmæti bank­ans væru gríðarleg. Vog­un­ar­sjóðirn­ir væru að nýta kauprétt­inn því þeir sæju tæki­færi til þess að koma rík­inu út úr bank­an­um, og þar með getað vélað um eign­ir bank­ans og stór­grætt á þeim. Það væri mark­mið er­lendra hlut­hafa bank­ans, að nota eigið fé bank­ans til að kaupa hlut rík­is­ins á undi­verði til þess að eign­ar­hlut­ur annarra hlut­hafa, sem væru er­lend­ir vog­un­ar­sjóðir, myndu aukast að verðmæti.

„Með öðrum orðum, þeir eru að kaupa hlut­inn án þess að þurfa að taka upp veskið, eins og ég sagð áðan. Og græða þá á hon­um af því hann er svo ódýr. Það sjá það all­ir, hann er ódýr vegna þess að dótt­ur­fé­lög­in eru svo verðmæt,“ sagði Birg­ir.

Hann spurði enn­frem­ur, hvort ráðherra hefði óskað um af­stöðu Fjár­mála­eft­ir­lits­ins til þess­ar­ar hátt­semi annarra eig­enda Ari­on banka. „Geta þetta tal­ist góðir stjórn­ar­hætt­ir hjá fjár­mála­fyr­ir­tæki?“

Bjarni boðar þing­mann­in­um góðar frétt­ir

Bjarni sagði að Banka­sýsla rík­is­ins hefði farið yfir það með efna­hags- og viðskipta­nefnd þings­ins hvernig þessi at­b­urðir gerðust varðandi virkj­un kauprétt­ar­ins og hver afstaða  hlut­haf­ans, rík­is­ins, hefði verið á hlut­hafa­fund­um um þessi efni. 

„En hátt­virt­ur þingmaður, hann er kom­inn með svarið við því hvernig hann met­ur bank­ann. Hann les Morg­un­blaðið og hann er bú­inn að kom­ast því að bank­in­in er miklu meira virði held­ur en þessi 0,8. Þá er ég með góðar frétt­ir fyr­ir hátt­virt­an þing­mann. Við gerðum af­komu­skipta­samn­ing við eig­end­ur bank­ans, Kaupþing. Hann virk­ar þannig að ef bank­inn selst á bil­inu 100 millj­arðar til 140 þá skipt­ist það verð þannig að einn þriðji renn­ur beint til rík­is­ins. Ef að bank­inn selst á bil­inu 140 til 160 millj­arða, þá skipt­ist kaup­verðið að hálfu milli eig­and­ans og rík­is­ins. Og ef að bank­inn selst, eins og hátt­virt­ur þingmaður virðist trúa, jafn­vel á meira en 160 millj­arða, það er að segja hlut­ur Kaupþings, að þá fær ríkið þrjá fjórðu af kaup­verðinu á grund­velli af­komu­skipta­samn­ings. Þannig að ef þetta geng­ur allt eft­ir í alþjóðlegu útboði, sem ætti að vera ágæt­is leið til þess að finna hvert er raun­veru­legt virði bank­ans. þá skil­ar það sér mjög ríku­lega beint til rík­is­ins,“ sagði fjár­málaráðherra.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert