Guðjón Skarphéðinsson, einn fimmmenninganna sem fengu endurupptöku mála sinna fyrir Hæstarétti eftir að hafa verið dæmdir fyrir sléttum 38 árum í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu, hafði reiknað með því að Davíð Þór Björgvinsson, settur ríkissaksóknari myndi krefjast sýknu, eins og tilkynnt var í gærdag.
Guðjón segir að í raun hafi sýkna sín og hinna fjögurra blasað við, allt frá því að dómar í málinu féllu. Fyrst í héraðsdómi hinn 19. desember árið 1977 og svo í Hæstarétti hinn 22. febrúar 1980 – fyrir sléttum 38 árum. Hinir fjórir sem nú er farið fram á að verði sýknaðir af öllum sökum til viðbótar við Guðjón eru Sævar Marinó Ciesielski, Tryggvi Rúnar Leifsson, Kristján Viðar Viðarsson og Albert Klahn Skaftason.
„Í báðum þessum dómum eru í rauninni ekki framfærðar neinar sannanir fyrir að nokkur skapaður hlutur hafi gerst,“ segir Guðjón í samtali við Morgunblaðið. Hann segist þó ekki fullviss um að Hæstiréttur muni snúa við fyrri dómum sínum, þrátt fyrir að settur ríkissaksóknari fari nú fram á sýknu. Fá ef nokkur fordæmi séu fyrir því.
„Hann hefur þá smugu að viðurkenna ekki einhvern punkt í þessu ferli, endurupptökunefndirnar eða einhvern annað stað í ferlinu. Þó að saksóknari leggi til sýknu, þá er það ekki alveg búið, tel ég.“
Hann segir að búið sé að „nudda við“ málið í rúm 20 ár og að margir hafi lagt þar sitt fram við að koma málinu á þann stað sem það er á í dag. „Þannig hefur þetta nú potast,“ segir Guðjón, sem segir þó að málinu sem slíku ljúki ekki, þrátt fyrir að sýknudómur falli.
„Þessir menn hurfu engu að síður, er það ekki,“ spyr Guðjón og vísar þar til þeirra Guðmundar og Geirfinns Einarssona, sem hurfu báðir sporlaust árið 1974.
Síðan byrjað var að berjast fyrir endurupptöku málsins um miðjan tíunda áratuginn segir Guðjón að ekki hafi liðið ár án þess að einhver hreyfing hafi verið á hans lífi vegna málsins, sem alltaf hefur vakið mikla athygli fjölmiðla og almennings. Allar götur frá því árið 1996, þegar hann fluttist aftur til landsins frá Danmörku, hafi verið einhver umfjöllun um málið.
„Ég hef ekki beðist undan því neitt sérstaklega. Ég hef ævinlega svarað öllu og sýnt mig í mynd og gert allar kúnstir. Enda hef ég ekkert að fela í þessum efnum.“