Vill ekki að Efling verði beintengd pólitík

Ingvar Vigar Halldórsson leiðir A-listann í stjórnarkjöri Eflingar.
Ingvar Vigar Halldórsson leiðir A-listann í stjórnarkjöri Eflingar. Ljósmynd/Aðsend

Ingvar Vigur Halldórsson, oddviti A-listans í kosningu til stjórnar Eflingar stéttarfélags í byrjun næsta mánaðar, segir mjög óeðlilegt hvernig formenn annarra stéttarfélaga og stjórnmálaöfl hafi beitt sér í kosningabaráttunni. Hann segist bjóða sig fram á eigin forsendum en ekki uppskáldaðrar elítu sem andstæðingar hans hafi reynt að setja fram.

Í samtali við mbl.is segir Ingvar að hann aðhyllist ekki róttæka baráttu sem mótframbjóðendur hans hafi lagt upp með heldur vilji hann byggja á því starfi sem fyrri stjórn hafi unnið að. Þá segist hann staðfastur um að Efling verði áfram innan ASÍ.

Áhyggjur af pólitískri tengingu inn í Eflingu

Undanfarið hefur mikil athygli beinst að mótframboði Ingvars og hafa meðal annars Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, og sagði Vilhjálmur Birgisson, formaður verkalýðsfélags Akraness  lýst yfir stuðningi við B-listann í kosningunum, sem Sólveig Anna Jónsdóttir leiðir. Þá hefur Gunnar Smári Egilsson og Sósialistaflokkurinn verið tengdir við framboð hennar og sagði fráfarandi formaður Eflingar óvanalegt að utanaðkomandi pólitískt afl skipti sér af málefnum einstakra stéttarfélaga.

Ingvar segir að undir venjulegum kringumstæðum myndi hann ekki vilja tjá sig um mótframboðið, en að hann hafi miklar áhyggjur af því sem hann kallar pólitíska tengingu inn í stéttarbaráttuna. „Ég hef áhyggjur af því að einn helsti talsmaður B-listans sé Gunnar Smári og hef áhyggjur af því að hann ætli að nota þetta sem stökkpall inn í sveitarstjórnarkosningarnar,“ segir Ingvar og bætir við að Gunnar Smári hafi verið með markaðssetningu fyrir framboð Sólveigar á Facebook-síðu Sósíalistaflokksins.

„Það er mjög langt síðan pólitík og stéttarfélög voru slitin í sundur og í stéttarfélögum á að vera pláss fyrir allar raddir, óháð pólitík,“ segir Ingvar. Gagnrýnir hann einnig aðkomu þeirra Ragnars Þórs og Vilhjálms. „Það er mjög óeðlilegt að formenn annarra stéttarfélögum skipti sér af kosningu í öðrum félögum.“

Vill Eflingu innan vébanda ASÍ

Ragnar Þór hefur meðal annars talað fyrir mögulegri útgöngu VR úr ASÍ  og gagnrýnt Gylfa Arnbjörnsson, forseta ASÍ. Þá hafi hann sagt á kynningarfundi framboðs B að Gylfa væri ekki stætt næði Sólveig kjöri. Spurður út í afstöðu sína varðandi veru Eflingar í ASÍ segir Ingvar að afstaða hans og framboðsins sé mjög skýr. „Við viljum byggja á áframhaldandi samvinnu með heildarsamtökunum ASÍ og við teljum að með samstöðu náum við betri árangri. Ég tel rangt að segja sig úr samtökunum og tel að þau [innskot blaðamanns: framboð Sólveigar] sé að horfa þá leið.“

Ingvar vísar til þess að Vilhjálmur hafi nýlega sagt að hann hafi fundað með Sólveigu og Ragnari í þrjár klukkustundir, en bæði Ragnar og Vilhjálmur hafa verið mjög gagnrýnir á núverandi forystu ASÍ. „Það er eitthvað í gangi sem er ekki hliðholt samstöðunni.“

„Það var reynt að setja mig í prinsessustól

Þá gagnrýnir Ingvar að stuðningsmenn mótframboðsins hafi stillt honum upp sem einhverjum arftaka sem fyrri stjórn hafi valið. „Það var reynt að setja mig í prinsessustól, en svo er ekki,“ segir hann og bætir við: „Það er klárlega verið að láta líta út fyrir að ég sé hluti af einhverri ímyndaðri elítu.“

Segist Ingvar sjálfur hafa tekið ákvörðun um að bjóða sig fram og enginn úr stjórn félagsins hafi beðið hann um það. Segist hann hafa hugsað um framboðið í langan tíma, en það hafi alls ekki verið sjálfgefið.

Hann hafi hins vegar verið þátttakandi í stéttarfélagsbaráttunni frá 16 ára aldurs. Fyrst sem trúnaðarmaður hjá Akureyrarbæ, en þar vann hann við sorphirðu, „eða sem ruslakall eins og það var þá kallað,“ segir Ingvar. Í gegnum tíðina hafi þetta alltaf verið hugsjónarstarf unnið í sjálfboðavinnu. Eina greiðslan sem hann hafi fengið fyrir störf sín í áratugi hafi verið 70 þúsund króna árleg greiðsla þegar hann var í stjórn Eflingar, en það var hugsað sem aksturspeningur og greiðsla stöðumælagjalda eftir að Reykjavík setti upp mæla við húsnæði félagsins.

„Það á ekki að byrja að hrópa úlfur úlfur 

„Ég hef alltaf trúað á að verkin tali, en finnst það vanta núna,“ segir hann og bætir við að sér finnist mótframboðið frekar hafa viðhorfið „helvítis fokkin fokk“, að þau hafi ekki mætt á fundi hjá félaginu í gegnum tíðina eða reynt að hafa áhrif, en ætli nú að koma með róttækar hugmyndir og segi að allt sem unnið hafi verið sé ómögulegt. Hans skoðun sé hins vegar að Grettistaki hafi verið lyft í mörgum málaflokkum, þó að hann vilji gera betur. „Munurinn á okkur Sólveigu er að ég vil byggja á því góða starfi sem hefur verið unnið. Þau segja beint út að þau vilja róttæka baráttu og aðgerðir.“

Segist hann ekki getað tekið undir með að það eigi strax að fara í róttæka baráttu. Segir hann fyrsta skrefið í viðræðum alltaf vera samtal „Það á ekki að byrja að hrópa úlfur úlfur eða hóta verkfalli.“ Ef ekkert komi úr því þurfi aftur á móti að skoða næstu skref eins og verkföll eða aðrar aðgerðir

Verið á kafi í starfi Eflingar síðustu 15 ár

Eftir að hafa unnið í nokkur ár á Akureyri flutti Ingvar til Danmörku og bjó þar í fimm ár, en svo flutt heim fyrir um 15 árum og síðan þá verið á kafi í starfi Eflingar. Meðal annars hafi hann verið trúnaðarmaður hjá Efnamóttökunni, þar sem hann hafi unnið allan tímann og svo hafi hann farið í trúnaðarráð Eflingar og síðar í stjórnina. Hins vegar hafi hann ekki verið í stjórninni á síðasta ári, en verið í stjórn sjúkrasjóðs, samninganefnd og fleiri trúnaðarstörfum.

Lægstu launin, húsnæðismál og mannréttindi

„Ég hef brennandi áhuga á þessu og sá tækifæri þegar Sigurður [Bessason] tekur ákvörðun um að gefa ekki kost á sér. Sá þar kost á því að hafa áhrif,“ segir Ingvar. Það sem helst brennur á honum eru lægstu laun og húsnæðismálin. Þannig eigi hann sjálfur börn á þeim aldri sem vanti húsnæði og að hann sjái með eigin augum hversu erfitt ástandið sé þar.

„Ég vil keyra áfram verkefni eins og Bjarg,“ segir hann en þar á hann við fasteignafélagið Bjarg sem stéttarfélög og sveitarfélög standa að og er byrjað að reisa íbúðir fyrir hina tekjulægstu. Segir hann hugmyndafræðina þar eins og „gamla féló“ og að þróa eigi það kerfi lengra áfram. Þá segist hann vilja beita rödd sinni fyrir því að greidd leiga verði grundvöllur greiðslumats þannig að fólk sem geti greitt 200 þúsund í leigu falli ekki á greiðslumati upp á 160 þúsund.

Ingvar segist einnig berjast fyrir almennum mannréttindum og að slíkt skipti miklu máli í félagi eins og Eflingu. Vísar hann meðal annars til #metoo-byltingarinnar og að innan Eflingar sé stór hópur sem hafi stigið fram í þeirri umræðu, ekki síst meðal kvenna af erlendum uppruna. Segir hann að félagið þurfi að passa upp á að umræðan um þessi mál deyi ekki út.

Kosningar í stjórn Eflingar mun fara fram dagana 5-6. mars.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert