„Margar rannsóknir sýna að íþróttaiðkun hafi jákvæð áhrif á námsárangur en ég velti fyrir mér hvort það séu einhver hámörk, það er að segja hvort of mikil íþróttaiðkun geti haft neikvæð áhrif á námsárangur,“ segir Bjarni Rúnar Lárusson sem skoðaði þessa þætti í meistararitgerð sinni í menntunarfræði og nefnist hún: Kapp er best með forsjá: dvína jákvæð áhrif hreyfingar og íþróttaiðkunar á námsárangur við mikið álag hjá börnum og unglingum?
Í stuttu máli var niðurstaða ritgerðarinnar sú að helmingur, af þeim fjórum ungmennum sem tekin voru viðtöl við, töldu að þessi mikla íþróttaiðkun hefði neikvæð áhrif á námsárangur sinn og töldu að þau myndu standa sig betur í námi ef álagið væri minna. Þessi ungmenni stunduðu skipulagðar íþróttir frá 8 til 21 klukkustundar á viku, voru á aldrinum 15 til 17 ára og bjuggu á landsbyggðinni.
Bjarni Rúnar bendir á að mikil umræða í samfélaginu sé um að íslenska þjóðin fitni jafnt og þétt og að almenningur nái oft ekki lágmarkshreyfingu. Embætti landlæknis hefur gefið út ákveðin viðmið eða lágmörk um hreyfingu og mælt er með að börn og unglingar stundi að lágmarki 60 mínútur af meðalerfiðri eða erfiðri hreyfingu á dag og fullorðnum er ráðlagt að stunda að lágmarki 30 mínútur. Hins vegar hafa ekki verið gefin út viðmið um hámörk á hreyfingu fyrir þennan hóp.
„Það hljóta að vera einhver hámörk á hreyfingu fyrir börn og unglinga. Hvar liggja þau? Eru þau einstaklingsmiðuð? Eða er hægt að alhæfa yfir allan hópinn? Af hverju hafa ekki verið gerðar stærri rannsóknir á þessu þar sem við sem þjóð erum mjög öfgakennd þegar kemur að íþróttaiðkun? Við náum gífurlegum árangri því við erum öfgafull en á sama tíma hlýtur þetta að taka einhvern toll,“ veltir Bjarni Rúnar fyrir sér.
Á Íslandi eru íþróttir mikilvægur þáttur í lífi margra. Börn og unglingar æfa mjög mikið og leggja gífurlega mikla vinnu og tíma í áhugamálið, einkum hjá þeim einstaklingum sem búa utan höfuðborgarsvæðisins sem þurfa oft að fara þangað í tímafrek keppnisferðalög, að sögn Bjarna Rúnars.
Í ritgerðinni voru tekin 12 viðtöl, fjögur við ungmenni í námi sem stunduðu að minnsta kosti átta klukkustundir af skipulögðum íþróttaæfingum á viku. Þetta voru þrír strákar og ein stúlka, tveir strákar í grunnskóla annar í 9. bekk og hinn í 10. bekk og hin tvö í framhaldsskóla 16 ára strákur og 17 ára stúlka. Fjögur viðtöl voru tekin við annað foreldri allra ungmennanna sem og umsjónarkennara þeirra.
Bjarni Rúnar tekur fram að veikleikar rannsóknarinnar eru fyrst og fremst hversu lítið úrtakið er. Viðtölin gefa vísbendingar um ákveðna hluti sem þyrfti að rannsaka betur en ekki er hægt að alhæfa fyrir öll ungmenni sem stunda íþróttir með skóla út frá þessari rannsókn.
Í ritgerðinni var einnig kannað hvort foreldrar og kennarar hefðu neikvæðara viðhorf gagnvart atvinnuþátttöku barna og unglinga en íþróttaþátttöku. Í ljós kom að þeir voru með neikvæðara viðhorf gagnvart vinnu þeirra en íþróttaiðkun. Talsvert hafa verið rannsökuð tengsl milli námsárangurs og vinnu. Þær rannsóknir benda til þess að ef ungmenni vinnur 13 til 20 tíma á viku hafi það ekki áhrif á námsárangur en klukkustundir í vinnu umfram það geta haft neikvæð áhrif á námsárangur.
Hlutfallsleg atvinnuþátttaka ungmenna á Íslandi hefur aukist að undanförnu þar sem 18% stúlkna og 25% drengja vinna með skóla. Bæði kennarar og foreldrar töldu í lagi að barnið ynni mun færri klukkustundir á viku en það sinnti íþróttunum.
Atvinnuþátttöku ungmenna eru settar skorður með lögum. Í þeim segir að ungmenni að 15 ára aldri megi á starfstíma skóla eingöngu vinna tvær klukkustundir á dag eða 12 klukkustundir á viku. Bjarni Rúnar bendir á að engar skorður eru á íþróttaiðkun barna á sama aldri, sem oft og tíðum fer langt umfram þessi mörk með æfingum og keppnum.
Bæði kennarar og foreldra segja stundaskrá ungmenna þéttpakkaða, einkum þeirra sem eru í framhaldsskólum. Eitt foreldri segir mikið álag á dóttur sinni alls staðar og óttast að hún gæti brunnið út. Bæði er æfingaálagið mikið og foreldrið vill að það minnki og eins er viðvera nemenda í skólanum mikil. Kennararnir tóku í sama streng og sögðu að í framhaldsskólum geti verið mjög erfitt að stunda miklar íþróttir því styttingin á námi í þrjú ár geri það að verkum að þau eru lengur í skólanum.
Kennararnir ræddu einnig um brottfall nemenda úr íþróttum vegna álags. Í viðtölum við þá kom einnig fram að þeir höfðu áhyggjur af forgangsröðun barna og ungmenna sem iðulega virðast setja skólagöngu og nám aftar bæði íþróttum og atvinnuþátttöku.
Kennararnir sáu greinilega að krefjandi æfinga- og keppnisferðir og morgunæfingar ungmennanna höfðu áhrif á framistöðu þeirra í skólanum. Dæmi voru um að þau sofnuðu fram á borðin vegna þreytu.
Tvö ungmenni af fjórum töldu að álagið af íþróttaiðkuninni og tíminn sem færi í æfinga- og keppnisferðalög bitnaði á námi þeirra og töldu sig ná betri námsárangri ef sá tími minnkaði. Ungmenni byrja snemma að sérhæfa sig í íþróttum og æfa á afreksstigi margar klukkustundir á viku og mörg mæta einnig á morgunæfingar fyrir skóla. Yfirleitt fjölgar æfingunum hratt í kringum 13 ára aldur og heldur áfram að aukast fram eftir aldri.
Þegar æfingaálagið eykst í kringum þennan aldur hætta margir að æfa íþróttina vegna álags. „Öllum er alltaf ýtt út í keppni en það á ekki endilega við alla. Þetta viðhorf innan íþróttanna er ríkjandi um að annaðhvort er [iðkandinn] með alveg 100% eða ekki,“ segir Bjarni Rúnar og bendir á að þetta sé ekki endilega gott fyrir alla þrátt fyrir að við viljum leggja rækt við að koma upp afreksíþróttafólki.
Þetta er ekki gott fyrir þá einstaklinga sem vilja halda áfram að sinna áhugamálinu sínu en eru ekki endilega tilbúnir að gera það á þessu stigi. „Það hefur sýnt sig að það getur verið erfitt að koma inn í íþróttir aftur seinna meir,“ segir Bjarni Rúnar. Eitt foreldri greindi frá því í viðtalinu að það hefði mætt neikvæðu viðmóti þegar barnið hætti um tíma í íþróttinni og byrjaði aftur.
Bjarni Rúnar bendir á að þjálfarar séu meira og betur meðvitaðir um ofþjálfun í dag en þeir voru fyrir nokkrum árum. Meiri umræða um ofþjálfun hafi skapast í samfélaginu en fullt tilefni er hins vegar til að halda áfram að skoða þetta hámark þjálfunar.
„Við þurfum að hugsa um hag barnanna til framtíðar og reyna að efla frekar mannkostina í gegnum íþróttirnar eins og sanngirni, hugulsemi, þrautseigju og heiðarleika. Keppnin snýst ekki alltaf um að sigra heldur að hafa gaman af íþróttinni sinni,“ segir Bjarni Rúnar.