Ekki í fararbroddi fyrir bættu siðferði

Krafist er útskúfunar án þess að sýnt sé fram á …
Krafist er útskúfunar án þess að sýnt sé fram á að ásakanirnar séu réttar og sannar,“ segir Brynjar Níelsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins í færslu sinni. mbl.is/Eggert

Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, gerir athugamdir við gagnrýni Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur þingmanns Pírata á Facebook síðu sinni. Segir Brynjar að á tímum Carthyismans hafi menn þó a.m.k. fengið að bera hönd fyrir höfuð sér. 

„Nú um stundir þykir ekki tiltökumál að ásaka opinberlega mann og annan um um glæpi og misgjörðir. Krafist er útskúfunar án þess að sýnt sé fram á að ásakanirnar séu réttar og sannar,“ segir Brynjar í færslu sinni.

Þórhildur Sunna hefur undanfarið bæði gagnrýnt að Braga Guðbrands­syni sé gert kleift að bjóða sig fram til Barna­rétt­ar­nefnd­ar Sam­einuðu þjóðanna, sem og akstursgreiðslur til Ásmundar Friðrikssonar þingmanns Sjálfstæðisflokksins. Ekki er ljóst í hvort málið Brynjar er að vísa.

Segir Brynjar stjórnmálamenn og pólitíska hópa ekkert gefa eftir í ásökunum sínum og séu raunar ákafastir þeirra sem telji sig vera í siðvæðingarherferð. „Þegar menn voru sakaðir um kommúnískan undirróður og landráð á tímum Carthyismans í Bandaríkjunum fengu menn þó að bera hönd fyrir höfuð sér áður en kom að brottvikningu úr starfi eða útskúfun.“

Veltir Brynjar því næst fyrir sér hvort að Winston Churchill hafi hitt naglann á höfuðið, „þegar hann sagði að fasistar framtíðarinnar muni kalla sig andfasista. Hvort sem það er rétt eður ei er ljóst að þetta fólk mun aldrei vera í fararbroddi fyrir bættu siðferði.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert