Meirihluti Íslendinga telur að Sigríður Andersen dómsmálaráðherra eigi að segja af sér embætti eða 72,5% ef marka má niðurstöður skoðanakönnunar Maskínu en 27,5% telja að hún eigi að sitja áfram. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu en könnunin var gerð í samstarfi við fréttavefinn Stundina.
Mikill munur er á afstöðu fólks eftir stjórnmálaskoðun. Mikill meirihluti kjósenda Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, Samfylkingarinnar, Pírata og Viðreisnar telja að Sigríður eigi að segja af sér og sömuleiðis meirihluti kjósenda Framsóknarflokksins og Flokks fólksins.
Hins vegar telur meirihluti kjósenda Sjálfstæðisflokksins og Miðflokksins að dómsmálaráðherra eigi að sitja áfram í embætti eða 77% kjósenda Sjálfstæðisflokksins og 56% kjósenda Miðflokksins. Könnunin var gerð dagana 15.-20. febrúar. Svarendur voru 858 talsins og 88,7% þeirra tóku afstöðu til spurningarinnar.