Hart var sótt að Ásmundi Einari Daðasyni, félags- og jafnréttismálaráðherra, í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi í dag. Halldóra Mogensen Pírati og Þorsteinn Víglundsson úr Viðreisn spurðu hvers vegna Bragi Guðbrandsson væri tilnefndur sem framboðsefni Íslands til Barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna.
„Hefði ekki verið skynsamlegra að niðurstaða lægi fyrir áður en framboð Braga í þess nefnd var ákveðið? Hvenær lá niðurstaða fyrir?“ spurði Halldóra og beindi orðum sínum til Ásmundar en niðurstaða rannsóknarinnar hefur ekki verið kynnt opinberlega.
Frá því í nóvember hafa starfsmenn barnaverndarnefnda víða um land stigið fram og sagt frá andlegu ofbeldi af hálfu Braga, ófaglegum vinnubrögðum og því að Bragi hafi hlutast til í kynferðisbrotamálum.
Ásmundur sagði að hann hefði farið á fund á föstudag þar sem formönnum barnaverndarnefndanna voru kynntar niðurstöður ráðuneytisins og boðaðar breytingar á sviði barnaverndar til að byggja upp traust á sviði málaflokksins. Niðurstöðurnar verða væntanlega kynntar opinberlega síðar í dag. Hann sagði enn fremur að ljóst sé að það þurfi að ráðast í breytingar í barnaverndarmálum til að endurheimta traust.
Halldóra steig aftur í pontu og spurði hvers vegna niðurstöður úr rannsókn á máli Braga lágu ekki fyrir áður en hann fór í framboð til Barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna.
Ásmundur svaraði því til að niðurstaðan væri að hans mati á þann veg að Bragi hefði ekki brotið af sér á neinn hátt í starfi.
Þorsteinn sagði að kvartanirnar sem hefðu verið settar fram á hendur Braga hefðu snúið að fjölmörgum þáttum og verið alvarlegar. „Niðurstaða ráðuneytisins virðist vera sú að við þessi vinnubrögð hafi ekki verið að athuga,“ sagði Þorsteinn.
„Er það niðurstaðan að þessi vinnubrögð hafi verið í góðu lagi?“ spurði Þorsteinn.
„Niðurstaða þessarar könnunar ráðuneytisins er sú að forstjórinn hafi ekki brotið af sér í starfi,“ sagði Ásmundur þegar hann steig í pontu. Hann ítrekaði að það þurfi að ráðast í breytingar sem snúa að barnavernd.