Einhugur um flest nema tímasetninguna

Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ og Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR …
Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ og Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR á blaðamannafundi í dag. mbl.is/Hanna

„Nei, í sjálfu sér ekki. Ég virði niðurstöðuna en það var engin launung á því að ég var þeirrar skoðunar að það væri kominn tími til að slíta þessu,“ segir Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, aðspurður um það hvort hann hefði orðið fyrir vonbrigðum með niðurstöðu formannafundar ASÍ, sem ákvað að halda núverandi kjarasamningnum við Samtök atvinnulífsins í gildi.

Hann segir einhug hafa verið í afstöðu fundarmanna, um nánast allt nema tímasetningu þess að fara í baráttuna.

„Hér er niðurstaðan að velja sér tímasetningu fyrir slaginn en ekki það að fara ekki í slag,“ segir Gylfi.

„Minnihluti formanna, talsmenn meirihluta félagsmanna, vildu fara í þetta strax en meirihluti formanna, sem vissulega eru talsmenn minnihluta félagsmanna, taldi ástæðu til þess að taka þau verðmæti sem eru í samningi, hækkun lágmarkslauna í 300 þúsund og þá að byggja ofan á það í næstu kjarasamningum og hefja undirbúning þeirra nú þegar,“ segir Gylfi.

„Stjórnvöld eru að plokka af okkur fjaðrirnar,“ segir Gylfi og á þá við að launahækkanir hinnar tekjulægri hafi ekki skilað sér í betri lífskjörum þess hóps þar sem stjórnvöld hafi skert á móti.

„Þetta er hátterni sem verður að linna. Hér verður aldrei sátt á vinnumarkaði ef stjórnvöld ætla að vera í þessu, að tína niður það sem vel er gert með þessum hætti. Ég ætla að vona að því fari að linna,“ segir Gylfi. Hann á von á því umræða, undirbúningur og mögulega átök næstu samningalotu litist af þessu.

Vill sjá 60-65% skatt á ofurlaun

Launaþróun í efstu lögum samfélagsins veldur Gylfa áhyggjum.

„Ég held að það sé alveg klárt mál að þetta sé aftur og aftur að leiða til átaka á meðal þjóðarinnar. Þetta hafði greinilega mjög mikil áhrif á afstöðu einstakra aðildarfélaga minna í gær, fréttirnar af Landsvirkjun og bönkunum.“

Gylfi segir að setja ætti háan hátekjuskátt á „ofurlaun“. „60-65% væri allt í lagi. Það letur og það á að letja. Það á að letja fyrirtæki í að gera svona, en það á líka að breyta skattalögum fyrirtækja með þeim hætti að frádráttarbærni launakostnaðar þegar laun eru komin í einhverjar svona fjárhæðir eigi bara einfaldlega ekki að vera til staðar. Hluthafarnir ættu bara sjálfir að borga þetta. Það ætti að skattleggja þessi laun grimmilega.“

Útspil stjórnvalda frá því í gær opnaði á samtal ýmsar skattkerfisbreytingar sem kæmu tekjulægri hópum til góða. Meðal annars var þar rætt um mögulega hækkun persónuafsláttar, en krafa ASÍ hefur verið að persónuafsláttur hækki í samræmi við launavísitölu.

Gylfi segir að það „blasi við“ að sú aðgerð væri skynsamleg. „Þá minnsta kosti væri það þannig að þeir njóti sömu krónutölu. Það munar alveg um 77 þúsund hjá þeim tekjulægstu.“

Skilur minni félögin

„Við vorum með mikinn meirihluta félagsmanna á bakvið okkur, eða 66%, en að sama skapi þarf að vera mikill einhugur á bakvið svona ákvörðun,“ segir Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, sem segist hafa orðið fyrir miklum vonbrigðum með niðurstöðu formannafundarins.

„Ég held að það hafi veikt hreyfinguna gríðarlega að hafa ekki sagt upp samningunum núna og byrjað þessa vinnu strax, standa í lappirnar og stíga niður fæti.“

Hann segist samt hafa skilning með minni félögum sem hafi tekið þá afstöðu að halda samningum í gildi til áramóta.

„Þau eru kannski komin úr löngu sjómannaverkfalli og þetta hefur verið mjög erfið ákvörðun að taka. En að sama skapi þá segi ég á móti, ef við hefðum tekið þennan slag saman núna hefði heildin, samtakamáttur okkar allra, unnið þetta saman,“ segir Ragnar.

Ragnar Þór og Kristján Þórður Snæbjarnarson, formaður Rafiðnaðarsambands Íslands á …
Ragnar Þór og Kristján Þórður Snæbjarnarson, formaður Rafiðnaðarsambands Íslands á blaðamannafundinum í dag. mbl.is/Hanna

Allt í háaloft ef ekkert breytist

„Við fylgjum þessari línu sem er verið að taka hérna og undirbúum okkar bara enn betur fyrir næstu átök,“ segir Kristján Þórður Snæbjarnarson, formaður Rafiðnaðarsambands Íslands. Hann á sæti í átta manna samninganefnd ASÍ og vildi segja upp samningunum strax í dag.

Hann segist svekktur með niðurstöðuna. „Það er augljóst ef ekkert breytist í samfélaginu varðandi úrskurði kjararáðs og launaþróun hjá efstu stéttum samfélagsins mun allt fara í háaloft um næstu áramót,“ en þá renna kjarasamningarnir ASÍ og SA út.

Útspil stjórnvalda „alls ekki nægilega gott“

„Það er búið að vera að ögra okkur svo mikið,“ segir Guðbrandur Einarsson, formaður Landssambands íslenskra verslunarmanna, sem einnig situr í samninganefnd ASÍ. Hann er ósáttur með niðurstöðu formannafundarins.

„Mér finnst útspilið sem við fengum frá ríkisstjórninni alls ekki nægilega gott. Við hreyfum ekki við kjararáðinu og atvinnurekendur viðurkenna ekki forsendubrestinn. En það er auðvitað forsendubrestur úti um allt. Sjálftakan í launum er úti um allt, á sama tíma og við erum með fólk á töxtum sem fær ekki launaviðtölin sín og fær ekki launaskriðið sem er að eiga sér stað í samfélaginu, situr eftir á berstrípuðum töxtunum og horfir upp á fólk fá launahækkanir upp á 40-60%. Það gengur ekki.“

Hann segist hafa saknað einhverskonar framlags frá Samtökum atvinnurekenda í viðræðunum og að slíkt hefði mögulega getað einhverja sátt.

„Við hefðum átt að segja þessu upp og taka slaginn núna. Ég var lengi á þeirri skoðun að við hefðum átt að reyna þetta, en við fengum ekkert til að moða úr.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert