Stjórn Tækniskólans hefur ráðið Hildi Ingvarsdóttur vélaverkfræðing sem skólameistara Tækniskólans frá 1. júní næstkomandi.
Þetta kemur fram í tilkynningu.
Hildur lauk prófi í véla- og iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands 1999 og M.A.Sc í vélaverkfræði frá Háskólanum í Bresku Kólumbíu í Kanada 2001. Þá hlaut hún réttindi sem framhaldsskólakennari 2003.
Undanfarin 12 ár hefur hún starfað hjá Orkuveitu Reykjavíkur og síðustu fimm ár verið forstöðumaður viðhaldsþjónustu Veitna. Starfsmenn viðhaldsþjónustu Veitna, sem eru um 100 talsins og flestir iðnaðarmenn, sinna meðal annars. viðhaldi og eftirliti veitukerfa og vélbúnaðar fyrirtækisins.
Hildur sat í stjórn Tækniskólans frá 2014-2016 sem fulltrúi Samorku og þekkir því til skólans. Áður starfaði Hildur hjá Almennu verkfræðistofunni og sem kennari í Menntaskólanum í Reykjavík.
„Ég er afskaplega stolt að vera falið þetta hlutverk og hlakka til að kynnast öllu því góða fólki sem gerir skólann að því sem hann er. Ég hef brennandi áhuga á menntamálum og tel að við stöndum á tímum tækifæra en ég skynja verulega vakningu í samfélaginu um mikilvægi iðn- og starfsnáms. Halda þarf áfram hinni góðu vegferð Tækniskólans, að byggja upp og bæta öflugan og fjölbreyttan iðn- og tækniskóla með góðu félagslífi. Skólinn þarf sífellt að sækja fram í tækniþróun og þróun náms til þess að vera samkeppnishæfur og skila öflugu, vel menntuðu fólki út í atvinnulífið,“ segir Hildur í tilkynningunni.
Jón B Stefánsson fráfarandi skólameistari snýr sér að öðrum störfum fyrir Tækniskólann eftir að hann lætur formlega af störfum sem skólameistari: „Ég fagna ráðningu Hildar og veit að hún á eftir að halda áfram uppbyggingu Tækniskólans og gera hann enn öflugri með frábæru starfsfólki og sterkari tengslum við atvinnulífið,“ segir Jón.
Tækniskólinn er stærsti framhaldskóli landsins með ríflega 2.000 nemendur og tæplega 300 starfsmenn í 12 undirskólum.