Telur eftirspurn eftir ró og yfirvegun

Halldór segir ekki hægt að bregðast við því sem ekki …
Halldór segir ekki hægt að bregðast við því sem ekki er til staðar. Mynd/SA

„Ég met það sem svo að það sé eftirspurn eftir ró og yfirvegun, ekki upphlaupum og uppsögnum,“ segir Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins (SA), en formenn aðildarfélaga Alþyúðusambands Íslands (ASÍ) koma saman á fundi klukkan 11 í dag þar sem verður tekin ákvörðun um það hvort kjarasamningum verður sagt upp. Formenn þriggja verkalýðsfélaga höfðu í gærkvöldi fengið umboð félagsmanna sinna til að greiða atkvæði með uppsögn.

Halldór telur ekki meirihlutavilja fyrir því í samfélaginu að segja upp samningunum, enda muni þá hvorki koma til fyrirfram ákveðinna launahækkana í maí né hækkunar lágmarkslauna.

Engin þörf á viðbrögðum SA

Hann ítrekar fyrri orð sín um að engar forsendur séu fyrir uppsögn kjarasamninga og því sé engin þörf á viðbrögðum af hálfu SA. Það sé ekki hægt að bregðast við forsendubresti sem ekki sé til staðar.

„Samtök atvinnulífsins hafa sagt að það séu engar forsendur fyrir uppsögn kjarasamninga og við getum ekki brugðist við forsendubresti sem er ekki til staðar. Launahækkanir sem hafa verið kynntar upp á síðkastið hjálpa ekki í þessu samhengi en þær eru ekki forsenda fyrir uppsögn kjarasamninga. Við gerum skýran greinarmun þar á.“

Aðspurður hvort SA verði ekki engu að síður að bregðast við þeirri stöðu sem komin er upp, svarar hann því neitandi. Hann segir menn ekki geta ákveðið að forsendubrestur sé til staðar þegar hann sé það ekki. Því sé ekki við neinu að bregðast.

„Menn geta ekki bara valið sér eitthvað og sagt að það sé forsendubrestur. Það er mjög skýrt kveðið á um það í samningunum sjálfum. Það eru tvö ákvæði sem forsendunefndin tekur til skoðunar; annars vegar þróun kaupmáttar og hins vegar aðrir kjarasamningar sem gerðir eru, hvort þeir eru í sömu línu og samningar ASÍ og SA. Þetta eru einu tveir forsendubrestirnir sem geta átt sér stað.“

Halldór vísar til yfirlýsingar sem SA sendi frá sér í gær og segir búið að skila niðurstöðu. „Við höfum lýst okkar afstöðu og hún er alveg skýr. Við sjáum því hverju fram vindur í dag.“

Ekki vilji fyrir umróti og óvissu

Í yfirlýsingu SA frá því í gær segir meðal annars að SA og aðild­ar­fyr­ir­tæki þess, hafi staðið við all­ar sín­ar skuld­bind­ing­ar sam­kvæmt kjara­samn­ing­um við aðild­ar­fé­lög Alþýðusam­bands Íslands og raun­ar langt um­fram það í ljósi þess að kaup­mátt­ur launa hafi vaxið meira á samn­ings­tím­an­um en nokkru sinni fyrr. Kaup­mátt­ur launa hafi að jafnaði auk­ist um 20% og kaup­mátt­ur lægstu launa enn meira, um 25%. Það sé for­dæma­laus kaup­mátt­ar­aukn­ing á einu samn­ings­tíma­bili á Íslandi og þó víðar væri leitað.

Spurður hvort hann telji að tillögur ríkisstjórnarinnar um hækkun atvinnuleysisbóta og hækkun á greiðslna úr Ábyrgðarsjóði launa, muni hafa einhver áhrif á niðurstöðuna í dag, segist hann telja að að útspil hjálpi ótvírætt.

„Nú hafa aðilar vinnumarkaðarins og ríkisstjórnarinnar fundað í ráðherrabústaðnum í allan janúar og lungann úr febrúarmánuði og það er komið mjög myndarlega til móts við þessar helstu kröfur verkalýðshreyfingarinnar sem hafa birst þar. Þannig já ég tel ótvírætt að þetta eigi að hjálpa verulega í þessu samhengi. En aðalatriðið er kannski þetta, að ef samningum er sagt upp þá koma ekki til framkvæmda þær launahækkanir 1. maí, sem búið er að semja um, 3 prósent hækkun launa og hækkun lágmarkslauna úr 280 þúsund í 300 þúsund, sem er 7 prósentustiga hækkun. Ég met það sem svo að það sé ekki meirihlutavilji í samfélaginu fyrir því að láta þessar launahækkanir falla niður og þeirri óvissu og því umróti sem uppsögn kjarasamninga veldur í samfélaginu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert