Skilaboð um að allt sé í lukkunnar standi

Formannafundur ASÍ á Hilton Nordica hótel í dag.
Formannafundur ASÍ á Hilton Nordica hótel í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þetta eru bara gríðarleg vonbrigði,“ segir Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, um þá niðurstöðu formannafundar aðildarfélaga ASÍ í dag að kjarasamningar skyldu halda.

„Mér finnst þessi niðurstaða senda þau skilaboð út í atvinnulífið og til hins opinbera að það sé bara allt í lukkunnar standi,“ segir hann jafnframt. Það sé hins vegar alls ekki raunin.

Ragnar vísar meðal annars til frétta af stjórnendum í fjármálageiranum og af stjórnendum Landsvirkjunar sem hækkað hafa um um tugi prósenta í launum. „Mánaðarleg hækkun forstjóra Landsvirkjunar var 800 þúsund krónur, á sama tíma og lægstu launin eru 280 þúsund krónur fyrir skatt. Þetta er bara hver blauta tuskan á fætur annarri sem við erum að fá í andlitið nánast vikulega ef ekki daglega og munum fá eflaust næstu vikur og misseri þegar fyrirtækin byrja að birta sína ársreikninga. Ég er ansi hræddur um að ýmislegt áhugavert eigi eftir að koma í ljós sem fer á skjön við þennan stöðugleika og þetta meinta svigrúm sem á að vera til launahækkana. Þessa möntru sem við þekkjum. Ég er hræddur um að við eigum eftir að sjá launaskrið víðar en hjá hinu opinbera og í fjármálgeiranum.“

Ragnar telur fullreynt að að setja forsenduákvæði inn í kjarasamninga, enda sé þeim ekki sagt upp þegar þau bresta. Hann telur niðurstöðuna í dag einnig hafa veikt verklýðshreyfinguna.

 „Ég held að þessi niðurstaða hafa veikt hreyfinguna gríðarlega, þrátt fyrir að það hafi verið mikill einhugur um hvað þyrfti að gera, en ef merkin fylgja ekki óánægjunni þá veikir það okkar slagkraft, að mínu mati. Þannig ég er mjög óánægður með þessa niðurstöðu.“

Hvort niðurstaðan nú muni hafa áhrif á kjarabaraáttuna þegar samningar renna út um áramótin segir Ragnar það fara eftir því hvort stéttarfélögin standi saman um alvörukröfur, ekki einhverja smjörklípu. „Ég ætla ekki að taka þátt í einhverri brauðmolakröfugerð stórra hagsmunasamtaka. Ég ætla frekar að freista þess að vinna kröfugerðina vel í mínu baklandi og kalla svo eftir samstöðu stéttarfélaga um þær kröfur sem ég veit að við getum staðið saman um. Við getum ekki staðið saman um allt, en við getum klárlega tekið út alvörukröfur sem geta verið sameiginlegar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert