Karlmaður á sjötugsaldri, sem hafði verið leitað í íshelli í Blágnípujökli, fannst látinn inni í hellinum á tólfta tímanum í gærkvöldi. Björgunarsveitir af Norður- og Suðurlandi, ásamt reykkafara og áhöfn þyrlu Landhelgisgæslunnar, höfðu leitað mannsins frá því fyrr um kvöldið en þeir fyrstu voru komnir inn í hellinn á tíunda tímanum í gærkvöldi.
Samferðafólk mannsins var flutt í skála í Kerlingarfjöllum og verður flutt áfram þaðan til byggða, segir á facebooksíðu lögreglunnar á Suðurlandi í nótt.
Veður hamlaði flugi og það var ekki fyrr en um eitt í nótt að flugmenn Landhelgisgæslunnar gátu flogið af vettvangi. Aðrir sem að verkefninu komu eru á leið til byggða en sú ferð mun taka einhvern tíma.
Lögreglan á Suðurlandi fer með rannsókn á tildrögum slyssins en þau liggja ekki fyrir enn sem komið er. Maðurinn sem lést er Íslendingur.
„Fyrir hönd lögreglunnar þökkum við björgunaraðilum öllum, hvort sem þeir koma úr björgunarsveitum, slökkviliðum, frá Landhelgisgæslu eða sjúkraflutningum nú eða ferðaþjónustuaðilum sem veittu mikilvæga aðstoð, kærlega fyrir vinnuframlag þeirra og framlagningu á tækjum, búnaði og aðstöðu,“ segir á facebooksíðu lögreglunnar.