„Við teljum óásættanlegt að almenningur þurfi að sætta sig við tiltölulega hófstilltar launahækkanir á meðan efsta lag samfélagsins sækir gríðarlegar hækkanir. Það er augljóst að jöfnuður í samfélaginu er að minnka allverulega. Við töldum þennan tímapunkt bestan til að segja samningunum upp og reyna að lágmarka skaðann fyrir okkar félagsmenn,“ segir Kristján Þórður Snæbjarnarson, formaður Rafiðnaðarsambands Íslands.
Rafiðnaðarsambandið er eitt af sex stéttarfélögum sem vildu nýta uppsagnarákvæði kjarasamninga sinna og greiddi því atkvæði með tillögu um að segja þeim upp í kosningum ASÍ í gær. Hins vegar var tillagan á formannafundi ASÍ felld. Kjarasamningar á almennum vinnumarkaði munu því gilda til loka samningstímans.
Kristján bendir á að úrskurður kjararáðs sitji í félagsmönnum. Úrskurðirnir hafa farið langt umfram það sem almenningur má vænta í launakjörum og leiðréttingum á launakjörum. „Við sjáum einnig að laun stjórnar Landsvirkjunar hækka um 49%. Formaður þeirrar stjórnar er einnig formaður kjararáðs. Það er algjörlega óásættanlegt,“ segir Kristján.
Hann segist ekki geta neitað því að hann hafi ekki verið sáttur við niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar. Fram að því að kjarasamningar losna á nýjan leik verður tíminn nýttur vel í samninganefnd til að undirbúa þá næstu, að sögn Kristjáns.