Jöklarútan Sleipnir sat föst í krapa með 37 ferðamenn um borð í Geitlandi, skammt frá Langjökli í fyrradag.
Rútan er hugarfóstur Ástvalds Óskarssonar, sem sat einmitt við stýrið þegar óhappið átti sér stað.
„Þetta atvikaðist þannig að það var fastur bíll fyrir á veginum og ég ætlaði að fara út fyrir en þetta endaði svona,“ segir Ástvaldur.
Rútan festist í hádeginu í fyrradag og ekki tókst að losa hana fyrr en upp úr miðnætti með hjálp jarðýtu og gröfu.
Bíllinn er sennilega sá stærsti sinnar gerðar í öllum heiminum og eru dekkin 78 tommur, eða um tveir metrar í þvermál. Spurður segist Ástvaldur ekki hafa ofmetið kraftinn í Sleipni með því að hætta sér út fyrir veginn og í krapann. „Þú sérð ekki hvað er undir krapanum. Krapinn er versti óvinur jeppamannsins. Þetta er svo saklaust. Svo lendirðu ofan í gloppu og í hliðarhalla. Þá er ballið búið.“
Flestir ferðamannanna um borð voru Kínverjar og að sögn Ástvalds héldu þeir ró sinni. Öllum hafi verið hlýtt og þeir hafi komist þurrum fótum á land yfir í annan bíl, nokkrum klukkutímum síðar.
Þetta var í fyrsta sinn sem Ástvaldur festir jöklarútuna síðan hann hóf að keyra hana fyrir hálfu ári en eins og kunnugt er hefur verið mikil rigningartíð undanfarið. Rútan drap á sér í krapanum og stóð viðgerð yfir á henni í gær.
„Náttúran er þannig að maðurinn á erfitt með að eiga við hana stundum.“