„VR hefur verið gott félag fyrir sérfræðinga sem vinna skrifstofustörf en það er spurning hvort þetta fólk og stéttarfélagið eigi enn þá samleið,“ segir Ólafur Örn Nielsen, framkvæmdastjóri Kolibri, í samtali við mbl.is. Ástæðan er atkvæðagreiðsla formanna innan ASÍ um tillögu um að segja upp kjarasamningum. Tillagan var felld á fundi í vikunni.
Ólafur bendir á að fyrir nokkrum árum áttuðu starfsmenn í hans fyrirtæki sig á að þeir væru á leið í verkfall þegar VR boðaði til verkfalls þrátt fyrir að þeir hafi samið sjálfir um sín laun. Hann bendir á að laun hafi hækkað í samfélaginu og launaskrið hafi átt sér stað.
„Ég er ekki að gagnrýna verkalýðsfélög heldur frekar aðstæðurnar og aðferðafræðina. Það er ekki hægt að ætla að labba frá borðinu og segja öllu upp. Menn verða að axla meiri ábyrgð en það,“ segir Ólafur.
Sveiflur á vinnumarkaði eru ekki góðar til að byggja upp tæknifyrirtæki sem selur og þróar þekkingu líkt og Kolibri. „Þá gengur ekki að það sé upphlaup á vinnumarkaði á tveggja til þriggja ára fresti,“ segir Ólafur. Kaupmáttur og stöðugleiki er samvinnuverkefni stjórnvalda, verkalýðsforystunnar og atvinnurekenda. Í því samhengi bendir hann á að mörg fyrirtæki hafi ákveðið að byggja upp þróun sína í öðrum löndum vegna þessa sem og vegna sveiflu krónunnar.
Ólafur veltir þessu einnig upp í pistli sem hann skrifaði hér.