Kjartan Magnússon borgarfulltrúi hefur tekið að sér að vera pólitískur ráðgjafi Eyþórs Arnalds, borgarstjóraefnis Sjálfstæðisflokksins, fyrir komandi borgarstjórnarkosningar.
Í fréttatilkynningu frá Sjálfstæðiflokknum kemur fram að verði Eyþór borgarstjóri að loknum kosningum, mun Kjartan verða aðstoðarmaður hans í því embætti.
„Kjartan er að góðu kunnur innan Sjálfstæðisflokksins og hefur verið borgarfulltrúi fyrir flokkinn um langt árabil. Fáir þekkja því betur til málefna borgarinnar,“ segir í tilkynningu flokksins.
Þá hefur Janus Arn Guðmundsson stjórnmálafræðingur verið ráðinn framkvæmdastjóri borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins. Starfið felst í alhliða þjónustu við borgarfulltrúa sem og frambjóðendur flokksins fyrir komandi borgarstjórnarkosningar.