Kostnaður Reykjavíkurborgar við snjóhreinsun og hálkuvarnir það sem af er þessum vetri er 394 milljónir króna. Er það rúmlega 100 milljónum kr. meira en kostnaðurinn var fyrir sambærilegt tímabil í fyrra, en á þessum tíma árið 2017 var kostnaðurinn kominn upp í 271 milljón króna.
Í svörum frá Reykjavíkurborg segir að óvenjumikill tími hafi farið í hálkueyðingu þennan veturinn og að það ástand hafi eiginlega verið viðvarandi frá því um miðjan nóvember. Kostnaður Kópavogsbæjar við vetrarþjónustu þennan veturinn var einnig töluvert hærri þennan vetur en þann síðasta og m.a. var kostnaður við vetrarþjónustu bæjarins í nóvember 2017 um 200% hærra en árið á undan, sem stemmir við svar borgarinnar um aukna þörf á hálkuvörnum.
Í svari borgarinnar segir að vetrarþjónusta sé liður sem ekki sé auðvelt að áætla og að fjárhagsliðurinn sé því „meira viðmiðun en fastsettur rammi“ og er upplýsingar um hana raunar ekki að finna í fjárhagsáætlun borgarinnar. Hjá Kópavogsbæ fór kostnaðurinn á síðasta almanaksári hins vegar 43% fram úr áætlun og nam rúmum 143 milljónum kr.
Þegar kostnaður Reykjavíkurborgar fyrir vetrarþjónustu er skoðaður sést að veturnir 2014-15 og 2015-16 reyndust borginni dýrir. Fyrri veturinn nam hann tæpum 703 milljónum kr. og þann síðari rúmum 736 milljónum kr. sem einnig reyndust Kópavogsbæ dýrir.
Ekki eru hins vegar enn komnar inn tölur hjá borginni fyrir síðasta vetur.