Hjón sem búsett eru við Engimýri í Garðabæ vöknuðu upp með andfælum klukkan fjögur í nótt við að öryggiskerfi heimilisins fór í gang. Hjónin fengu sér öryggiskerfi fyrir tæpum tveimur mánuðum, meðal annars vegna þeirrar innbrotahrinu sem er nú á höfuðborgarsvæðinu. Það margborgaði sig svo sannarlega.
„Ég sá í appinu á símanum að hreyfiskynjarinn í bílskúrnum hafði farið af stað,“ segir konan sem býr í húsinu en kýs að koma ekki fram undir nafni. Hjónin eru með svokallað snjallöryggiskerfi frá Öryggismiðstöðinni, sem er með myndavélum og hreyfiskynjurum sem er beintengt við app í símanum.
Að vísu er ekki myndavél í bílskúrnum, en hreyfiskynjarinn gerði sitt gagn. „Ég hélt fyrst að þetta væri vindurinn, eða köttur, mér datt ekki innbrotsþjófur strax í hug,“ segir konan.
Hjónin fóru fram í forstofu, berfætt og á náttfötunum, og þegar þau opnuðu útidyrahurðina sáu þau að bílskúrshurðin var opin. Stuttu seinna skaust maður út um hurðina.
„Hann þaut í burtu og ég öskraði eitthvað á eftir honum,“ segir konan. Stuttu seinna kom starfsmaður Öryggismiðstöðvarinnar á svæðið. Hjónin ákváðu að tilkynna innbrotið til lögreglunnar. „Ég gat svo sem ekki lýst miklu en hann var í mjög spes úlpu, svartri með hvítum röndum, svo ég hugsaði að það væri að minnsta kosti eitthvað,“ segir konan.
Á meðan hún talaði við lögregluþjón í símann var henni litið út um gluggann og sá þá manninn standa í nokkurri fjarlægð frá húsinu og virtist hann fylgjast grannt með stöðu mála. „Mér dauðbrá auðvitað, en þetta var sama úlpan, svört með hvítum röndum.“ Lögreglan sendi bíl að húsinu þegar í stað en maðurinn lét sig hverfa rétt áður en lögreglan kom á vettvang.
Síðustu vikur hefur fjöldi innbrota og innbrotstilrauna verið gerðar á höfuðborgarsvæðinu og í síðustu viku voru fjórir einstaklingar úrskurðaðir í gæsluvarðhald vegna innbrotsmála, tveir vegna innbrots í Garðabæ og tveir vegna innbrots í Hafnarfirði.
Frétt mbl.is: „Nokkrir hópar sem eru að herja á okkur“
„Það er svo sannarlega óskemmtileg reynsla að vakna upp við að einhver er að reyna að brjótast inn til manns en sem betur fer fór hann ekki inn í húsið og náði ekki að taka neitt með sér,“ segir konan. Öryggiskerfið gerði sitt gagn en þakklátust eru hjónin samt fyrir það að börnin fjögur á heimilinu vöknuðu ekki við öll lætin.
Hjónin hafa ekki heyrt frá lögreglunni aftur en búast við að fá fréttir af stöðu mála á morgun. Málið er í rannsókn.