Búið er að brjóta rúður í 120 strætóskýlum á höfuðborgasvæðinu á rúmum mánuði. Um nýliðna helgi voru rúður brotnar í 35 strætóskýlum. Einar Hermannsson, framkvæmdastjóri AFA JCDecaux sem rekur skýlin, man ekki eftir viðlíka faraldri áður.
„Þetta er algjört rugl,“ segir Einar og segir ástandið ekki vera verra í einhverju einu hverfi. „Það merkilega við þetta er að þetta virðist bara vera hér og þar. Þetta er Reykjavík og nágrannasveitafélögin.“
Einar segir líklegt að þarna séu ungir drengir að verki. „Venjulega eru þeir að brjóta eina rúðu og hlaupa í burtu, en núna eru þeir að ganga mjög rösklega til verks og brjóta allar rúður í skýlunum.“ Ástandið í skýlunum er því oft slæmt á morgnana og glerbrot úti um allt. „Það þurfti að kalla út auka mannskap um helgina til að þrífa upp,“ segir Einar og kveður starfsmenn AFA JCDeacaux hafa verið á fullu undanfarið.
Ástandið í sumum hverfum er þá þannig að ekki borgar sig að setja rúður strax í aftur. „Sum hverfi hvílum við aðeins, því þar erum við bara að setja rúðurnar í til þess að það sé hægt að brjóta þær strax aftur,“ segir Einar. Hann nefnir sem dæmi að ástandið hafi m.a. verið slæmt í Voga- og Sundahverfi í nágrenni Menntaskólans við Sund. „Þar höfum við aðeins verið að hvíla, en svo berast kvartanir um að það vanti rúður og þá þurfum við að setja þær í aftur. Um leið og við erum búin að því þá er hins vegar búið að brjóta þær á ný.“
Tjónið af rúðubrotunum sl. mánuð er komið vel á fjórðu milljón.
Einar segir lögreglu vita af vandanum en að lítið sé hægt að gera. „Þetta kemur í bylgjum. Við höfum spáð í að láta vakta ákveðin skýli, en erum ekki komin þangað enn þá. Það væri dapurlegt að þurfa að láta setja upp myndavélar eða að vakta strætóskýli. Það er kannski ekki alveg samfélagið sem að við viljum búa í.“
Dragi hins vegar ekkert úr rúðubrotunum sé það þó eitthvað sem AFA JCDecaux muni skoða alvarlega.