„Þetta var svona ein af tilviljunum lífsins,“ segir Linda Gunnarsdóttir um leið sína að starfi yfirflugstjóra. Linda tók við starfi yfirflugstjóra hjá Icelandair í febrúar en hún er ein af örfáum konum í heiminum sem gegna því starfi. Hún hefur starfað í fluggeiranum í 25 ár og er vön að vera eina konan, til dæmis á fundum og í verkefnavinnu, þó svo að konum í flugi hafi fjölgað almennt.
Í febrúar voru gerðar umtalsverðar skipulagsbreytingar á rekstrarsviði Icelandair og nýir forstöðumenn ráðnir til nýrra starfa, þar á meðal Linda.
Hún kynntist fluginu sumarið eftir að hún útskrifaðist sem stúdent frá Verzlunarskóla Íslands árið 1991 og sótti um sumarstarf í afleysingum í afgreiðslu hjá Íslandsflugi sem þá var og hét. „Þar fæ ég endanlega flugáhugann, sem hafði blundað í mér í gegnum æskuna, og fer að taka einhverja flugtíma en var samt búin að skrá mig í hagfræði í háskólanum um haustið og þegar ég mætti þar fyrstu dagana fannst mér það óáhugavert og leiðinlegt samanborið við það sem ég var búin að gera um sumarið,“ segir Linda í samtali við mbl.is.
Linda endurmat því valkosti sína og skráði sig í flugrekstrarfræði við háskólann í Arizona þar sem hún hóf nám í ársbyrjun 1992. Fög sem tengdust fluginu vöktu mestan áhuga hjá Lindu sem kláraði atvinnuflugið í Bandaríkjunum en þurfti svo að taka öll prófin aftur þegar hún flutti heim vegna þess hversu reglugerðaumhverfið í Bandaríkjunum er ólíkt því sem gildir hér á landi.
Linda kom heim árið 1993 og hóf störf hjá Íslandsflugi, sem flugmaður á B-99, Metro og Dornier 228 og þá aðallega innanlands. Árið 1995 hóf hún störf hjá Flugleiðum á Fokker-50 í innanlandsflugi. Tveimur árum seinna hóf hún störf á Boeing-737 í millilandaflugi og svo síðar á Boeing-757/767 sem hún flýgur enn í dag. Hún tók við starfi flugstjóra 2005 og ári síðar útskrifaðist hún með B.sc í viðskiptafræði frá Háskólanum í Reykjavík með áherslu á stjórnun og stefnumótun. Hún tók við starfi flotastjóra á B-757 og svo stöðu aðstoðaryfirflugstjóra 2015.
Flugumhverfið er ólíkt mörgu öðru starfsumhverfi að mati Lindu. „Til dæmis sú staðreynd að við erum með starfsaldurslista sem þýðir að þegar þú ert ráðin til flugfélags færðu ákveðið númer. Síðan fer þinn framgangur í að verða flugstjóri eftir þörfum flugfélagsins, þinni reynslu og getu og þessu númeri. Ég fer því í stöðu flugstjóra samkvæmt þessu kerfi.“
Öðru máli gegnir um aðrar stöður sem Linda hefur gegnt hjá Flugleiðum og síðar Icelandair. „Það er eitthvað sem ég hef annaðhvort sóst eftir eða mér hefur verið boðið. Ég hef alltaf verið að sinna einhverju meðfram því að fljúga flugvél.“ Árið 2006 byrjaði Linda að sinna bóklegri ný- og síþjálfun flugmanna meðfram fluginu og frá 2011 hefur hún einnig starfað sem þjálfunarflugstjóri og prófdómari. „En ég veit ekki alveg hvað ég hef verið að sækjast mikið eftir þessu, það er stundum eins og hlutirnir gerist bara,“ segir Linda.
Þegar Linda hóf störf hjá Icelandair, sem hét þá Flugleiðir, var hún fjórða konan frá upphafi til að gegna starfi flugmanns. „En okkur hefur fjölgað mjög mikið á undanförnum árum,“ segir Linda. Í dag eru 8-10% flugmanna Icelandair konur, sem er töluvert yfir meðaltalinu í flugheiminum.
Linda segist hins vegar lítið hugsa út í þá staðreynd að hún sé oft eina konan í hópnum. „Ég er mjög vön því að vera eina konan í hópunum í þeim verkefnum sem ég að vinna í, ég er sennilega svo vön því að ég tek ekki lengur eftir því, og hef sennilega alltaf spáð lítið í það.“
Linda lýsir því hvernig hún leitaði ósjálfrátt eftir því að vinna með karlmönnum í námi sínu í háskólanum sem byggði að miklu leyti á hópavinnu. „Ég var hálfnuð í náminu þegar ég áttaði mig á því að ég valdi mig alltaf inn í strákahópa. Ástæðan var örugglega ofureinföld, ég kunni að vinna með þeim, ég vissi hvernig þeir vinna og hugsa.“
Um leið og Linda áttaði sig á þessu tók hún meðvitaða ákvörðun um að snúa þróuninni við. „Ég vann nánast bara með konum eftir það og það var skemmtileg reynsla og ég er sannfærð um það að kynin vinna hlutina á ólíkan hátt. Það er ekkert sem er betra eða verra í því, þetta er bara ólík nálgun. Ég held að konur fari aðra leið en karlar að sama markmiði, en ég held að endaniðurstaðan verði oft sú sama.“
Linda segir að margt hafi breyst á þeim rúmu 20 árum sem hún hefur starfað sem flugmaður. „Almenn kurteisi og skilningur á mismun kynjanna hefur aukist. En við erum ekki komin í mark.“ Linda telur að skilningur og umburðarlyndi á báða bóga þurfi að breytast svo að markmiðið náist, það er að konur og karlar verði jöfn. „Umburðarlyndi virkar í báðar áttir. Við þurfum líka að sýna því skilning að við erum koma inn í gamalgróna menningu í fluginu og við þurfum og eigum að þróast saman.“
Afar fáar konur gegna starfi yfirflugstjóra í flugheiminum, en Linda segist lítið vera að pæla í slíkri tölfræði. „Ég held að það sé hluti af því að ég hafi náð að lifa af í svona umhverfi á þokkalega góðan hátt. Þetta er mér ekki efst í huga. Ég er bara ein af hópnum og þannig hef ég alltaf litið á það. Ég held að það hafi verið mjög heillavænlegt.“
Í starfi sínu sem yfirflugstjóri bera Linda og hennar teymi meðal annars ábyrgð á yfirumsjón þeirra 540 flugmanna sem starfa hjá fyrirtækinu í sumar. Auk þess sér hún um ráðningar nýrra flugmanna og verkefni sem nefnist „Flugmenn til framtíðar“, sem miðar að því að fjölga flugmönnum næstu ára, á borði hennar teymis. Linda ber einnig ábyrgð á verkferlum um borð, þátttöku í innleiðingu á flugvélum og þeim tæknibreytingum sem verða í flugvélum fyrirtækisins. „Við höfum snertiflöt að mjög mörgum verkefnum og vinnum náið með mörgum deildum innan fyrirtækisins.“
Nýja starfið er erilsamt en Linda er full tilhlökkunar fyrir komandi tímum. „Það er mikið að gera, mikið líf og fjör, þú veist aldrei hvernig dagurinn þróast þar sem okkar fyrirtæki starfar allan sólahringinn, vélarnar stoppa aldrei. En megnið af því sem ég er að vinna að er mjög skemmtilegt, en auðvitað miserfitt eins og gengur og gerist í stjórnunarstörfum.“
Ýmsar fórnir fylgja nýja starfinu og ein þeirra er að Linda flýgur sjaldnar en áður. „Ég hef bara ekki tíma í það, því miður, en mér finnst afskaplega gaman að fljúga. Ég reyni að fljúga tvö flug í mánuði, til að viðhalda mér bæði réttindalega og faglega og vera í tengslum við hópinn minn.“
Linda á einnig hlut í lítilli flugvél á Reykjavíkurflugvelli og reynir að bjóða fjölskyldunni í flugferðir af og til. „Suðurlandið er í uppáhaldi, við eigum sumarbústað á Flúðum þannig að leiðin hefur oft legið á völlinn þar og svo tökum við hringi þar í kring. Við erum einnig dugleg að ferðast bæði innanlands og utan og stundirnar sem ég á með fjölskyldunni minni eru bestar,“ segir Linda, en hún og sambýlismaður hennar eiga saman þrjú börn á aldrinum 7-18 ára.
Linda horfir björtum augum til framtíðar og sér ýmis tækifæri til endurbóta og framþróunar. „Við erum fyrirtæki sem er búið að vera að stækka og breytast gríðarlega mikið á síðustu tíu árum. Okkar stóra áskorun í dag er að koma okkar starfsemi í takt við þær miklu breytingar sem hafa orðið á okkar innra og ytra umhverfi.“