Það er fagnaðarefni að fá tækifæri til að binda formlega enda á þetta mál, sagði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra í umræðu um vantrauststillögu á Sigríði Á. Andersen dómsmálaráðherra sem Samfylkingin og Píratar settu fram. Umræðan stendur nú yfir á Alþingi.
Sagði Bjarni nær óþekkt í íslenskri þingsögu að bornar væru fram vantrauststillögur í garð ráðherra. Það hefð síðast gerst 1954 þegar vantrausti var lýst yfir í garð menntamálaráðherra. „Ég tel tillöguna 1994 ekki með, af því að hún var borin upp í garð allra ráðherra ríkisstjórnarinnar,“ sagði hann.
Vantrauststillögur byggist ekki á rökbundinni nauðsyn, heldur geti þær verið álitamál og bæði pólitískar og persónulegar.
„Þeir eru því á afar undarlegu ferðalagi sem að þessu standa,“ sagði Bjarni. Dómsmálaráðherra hafi verið tilbúinn að færa rök fyrir máli sínu þegar eftir því hafi verið óskað og Hæstiréttur hafi ekki fallist á kröfu um að ógilda niðurstöðu ráðherra. Aukinheldur hafi nú síðast umboðsmaður Alþingis lýst því yfir að að hann teldi ekki tilefni til að taka málið til umfjöllunar.
„Það sem situr eftir er að þeir sem að þessu standa eru í leiðangri sem gengur út á það eitt að koma höggi á ríkisstjórnina,“ sagði Bjarni. Jóhanna Sigurðardóttir, fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar, hefði kallað eftir því á landsfundi flokksins fyrir skemmstu að flokkurinn beindi spjótum sínum gegn Sjálfstæðisflokknum og það væri það sem hann væri að gera nú.
„Það er langdregin umræða sem stjórnarflokkarnir hafa þurft að standa í um þetta mál. Það er því fagnaðarefni til að fá tækifæri til að binda formlega enda á málið,“ sagði Bjarni.
„Við getum þá farið að snúa okkur að þeim stóru málum sem eru framundan.“ Það eigi líka við um dómsmálaráherra sem sé vel til þess fallinn að sinna þeim málum sem séu á hennar borði og það muni koma fram að hún njóti góðs hluta meirihluta alþingis til þeirra starfa.