Það er síður en svo léttvægt að lýsa yfir vantrausti á ráðherra, sagði Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, við upphaf umræðu um vantrauststillögu Samfylkingarinnar og Pírata í garð Sigríðar H. Andersen dómsmálaráðherra sem hófst á þingi um hálffimmleytið í dag.
„Ábyrgð þingmanna við atkvæðagreiðsluna er því mikil,“ sagði Logi. Farsælt samfélag byggist hins vegar á trausti sem þarf að ríkja á framkvæmdavaldi, löggjafarvaldi og dómsvaldi.
„Það er alltaf alvarlegt þegar ráðherrar brjóta lög við ráðningu, en það er óhugnanlegt þegar það varðar dómaraskipan.“
Benti Logi á að Sigríður hefði tvívegis verið dæmd í Hæstarétti fyrir embættisfærslur sínar. „Brotin hafa þær afleiðingar að trúverðugleiki Landsréttar er dreginn í efa,“ bætti hann við og kvað langan tíma geta tekið að fá niðurstöðu í málið. „Í því ljósi þarf að hafa hagsmuni og skaðabótaskyldu ríkisins í huga.“
Sagði hann ráðherra hafa ítrekað farið með rangt mál í umræðu um málið hingað til og vísaði þar í ummæli dómsmálaráðherra um tímapressu sem Sigríður bar fyrir sig. Óvissan sem þetta hefði í för með sér hefði áhrif á heilt dómstig. Ráðherrann yrði að axla ábyrgð og sú ábyrgð yrði að birtast með skýrum hætti.
„Atkvæðagreiðslan snýst um það grundvallarmál á hverju við viljum byggja samfélag okkar,“ sagði Logi.